Um er að ræða tilraunaverkefni til tveggja ára í samvinnu við Barnaverndarstofu, sem mun leggja til verkefnisins 10 milljónir króna árið 2009 og sömu upphæð á næsta ári, með fyrirvara um samþykkt þess í fjárlögum. Akureyrarbær mun ráða starfsfólk til verkefnisins og útvega því starfsaðstöðu. Ráðgert er að þjónustan geti byrjað næsta haust og að starfinu komi þrír starfsmenn í einu og hálfu stöðugildi.
Akureyrarbær skipar verkefnisstjórn sem hefur umsjón með úrræðinu, ber ábyrgð á handleiðslu og þjálfun starfsfólks og tekur afstöðu til umsókna um meðferð. Meðferðin stendur einkum til boða unglingum með hegðunarerfiðleika og neysluvanda og fjölskyldum þeirra. Þjónustusvæði verkefnsins nær til umdæmis barnaverndarnefndar Eyjafjarðar en heimilt er að taka til meðferðar fjölskyldur utan svæðis, sé það gerlegt að mati verkefnisstjórnar.
Það voru þau Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri á Akureyri og Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnaverndarstofu sem undirrituðu samninginn.