Komið verði upp móttöku- stöðvum ÁTVR í hverjum landsfjórðungi

Kristján Þór Júlíusson alþingismaður hefur lagt fram á Alþingi tillögu til þingályktunar um jöfnun samkeppnisstöðu framleiðslufyrirtækja og styrkingu framleiðslustarfa á landsbyggðinni með endurskoðun á reglum ÁTVR. Fyrirtækið er aðeins með eina móttökustöð fyrir áfengi á landinu öllu, í Reykjavík, en lagt er til að kerfinu verði breytt og komið  upp móttökustöðvum ÁTVR í hverjum landsfjórðungi.

Tillaga þessi byggist á vinnu starfshóps um fyrirkomulag flutningsjöfnunar sem skipaður var af viðskiptaráðherra árið 2007 og skilaði af sér skýrslu í júlí 2008, eins og segir í greinargerð tillögunni.  Í skýrslunni eru kynntar tillögur nefndarinnar til að jafna flutningskostnað þannig að hann verði fyrirtækjum ekki verulega íþyngjandi. Rannsóknir hafa sýnt að kostnaður við flutning á vöru til og frá fyrirtækjum sem starfa utan helsta þéttbýlissvæðis landsins skekkir samkeppnisstöðu þeirra á innanlandsmarkaði og í útflutningi.  Í reglum ÁTVR, um vöruval og sölu áfengis og skilmála í viðskiptum við birgja nr. 481/ 2008, sem settar eru með heimild í reglugerð nr. 883/2005 um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, er að finna dæmi um regluverk þar sem flutningskostnaður íþyngir fyrirtækjum á landsbyggðinni. Þar segir að hverja pöntun skuli afhenda sérstaklega í vöruhúsi ÁTVR í Reykjavík. Samkvæmt reglum þessum hefur ÁTVR eina móttökustöð fyrir áfengi á landinu öllu sem staðsett er í Reykjavík. Það gefur auga leið að þetta fyrirkomulag skekkir mjög samkeppnisstöðu áfengisframleiðenda á landsbyggðinni. Þessu ætti að vera auðvelt að breyta og ekkert virðist standa því í vegi að ÁTVR taki á móti vörum á fleiri stöðum, t.d. í hverjum landsfjórðungi. Á þennan hátt mætti koma í veg fyrir að vöru yrði ekið fram og til baka um landið með tilheyrandi kostnaði og óþarfa fyrirhöfn. Auk þess starfar fjöldi fólks á landsbyggðinni við framleiðslustörf af þessu tagi en þau störf gætu verið í hættu vegna þessa mismunar á aðstöðu framleiðenda. Fyrir þessari breytingu má færa bæði þjóðhagsleg rök og byggðarök auk þess sem almenn sanngirnissjónarmið hníga að því að regluverki þessu verði breytt og hlutur landsbyggðarinnar réttur og samkeppnisstaða framleiðenda þar styrkt. Loks er rétt að geta þess að í skýrslu starfshóps um fyrirkomulag flutningsjöfnunar kemur fram að veittar hafa verið óformlega undanþágur frá reglum þessum til afhendingar sem renna enn frekari stoðum undir þá skoðun að hægur vandi sé að breyta framkvæmd þessari, segir ennfremur í greinargerðinni.

Meðflutningsmaður Kristjáns Þórs í þessu máli er Gunnar Svavarsson.

Nýjast