Útlit er fyrir mikinn straum ferðamanna til Akureyrar á komandi sumri að því er fram kom í samtölum við hótelstjóra í bænum og fleiri. Sigrún Björk Jakobsdóttir hótelstjóri hjá Icelandair hótel segir að veturinn hafi verið góður og að bæði Íslendingar og útlendingar hafi verið á ferðinni. Megnið af erlendum gestum hafa verið Bretar í tveggja nátta norðurljósaferðum sem hafa verið í gangi frá október og fram í apríl, segir hún. Þokkaleg nýting er nú um páskana. Bókunarstaðan á Icelandair hótelinu er þokkaleg fyrir sumarið og við opnum viðbygginguna með 37 herbergjum 1. júní þannig að alls verða 100 herbergi í sölu frá og með þeim tíma.
Sigurbjörn Sveinsson hótelstjóri á Hótel Kea segir að útlit sé fyrir að mikið verði um útlendinga á ferðalagi um Ísland á komandi sumri og bókunarstaða á hótelinu sé með ágætum fyrir sumarið. Við erum ánægð með það, segir Sigurbjörn. Veturinn hefur hins vegar verið heldur slappari en veturinn 2010 til 2011 og fyrst og fremst er það er um að ræða að fólk í t.d. árshátíðar- og starfsmannaferðum hefur ekki skilað sér norður í sama mæli og veturinn á undan. Við höfum fengið til okkar mikið af fólki sem sækir leikhús, eða er í árshátíðarferðum, en það er minna um það í vetur en var, segir Sigurbjörn og kennir fyrst og fremst um flugfargjöldum og háu bensínverði. Fólk er ánægt með þau tilboð sem það fær frá okkur, en þykir of dýrt að koma sér á svæðið, segir hann og fyrir vikið fari það skemmra til, Suðurlandið njóti vinsælda.
Það er hvert einasta pláss fullnýtt hjá okkur um páskana, það kemst ekki ein mús fyrir í viðbót, segir Örn Amin framkvæmdastjóri Sæluhúsa á Akureyri. Á þriðjudagskvöld kom hópur Færeyinga sem gistir í Sæluhúsum, einkum fjölskyldufólk á leið á skíði. Þeir komu með Norrænu og óku yfir til Akureyrar. Við erum mjög ánægð með nýtinguna enda getur hún ekki verið betri, segir Örn. Veturinn allur hefur verið mjög góður, bæði innlendir og erlendir ferðamenn hafi nýtt sér sæluhúsin og þá segir Örn að útlit sé fyrir að sumarið verði með besta móti miðað við bókunarstöðu nú. Við erum því bjartsýn og brosum hringinn, segir hann.