Kokkar og þjónar á Múlabergi skipta um hlutverk

Hópurinn að lokinni FLOTVAKT 1.febrúar 2024 þar sem kokkar og þjónar skiptu um hlutverk  Myndir Múla…
Hópurinn að lokinni FLOTVAKT 1.febrúar 2024 þar sem kokkar og þjónar skiptu um hlutverk Myndir Múlaberg

,,Ég þori eiginlega að fullyrða það að þetta hefur aldrei verið gert á Íslandi og ég veit svo sem ekki til þess að þetta hafi verið gert annars staðar í heiminum. Enda er þetta auðvitað alveg galin hugmynd,“ segir Ingibjörg Bergmann veitingastjóri á Múlabergi en þar verður viðburðurinn Flotið 2.0 haldinn annað kvöld fimmtudagskvöldið 29. janúar.

Hann virkar þannig að þjónar á veitingastaðnum gerast kokkar og kokkarnir verða þjónar. „Þetta er 100% leikmannaskipti eina kvöldstund,“ segir Ingibjörg. Sams konar viðburður var á Múlabergi í febrúar árið 2024 og nú er ætlunin að endurtaka leikinn.

Þjónarnir leggja sig fram í eldhúsinu á FLOTINU 2024.  

 

Voru að metast um hvort væri erfiðara

,,Þetta byrjaði fyrst sem brandari eftir eina krefjandi vakt þar sem fólk var svona aðeins að segja hvort öðru til milli deilda, eða metast hvort það væri erfiðara að vera með gesti eða inni í eldhúsi. Svo áður en ég vissi af var ég bara komin í kokkagallann og komnir rúmlega 100 gestir í bók,“ segir Ingibjörg. ,,Þetta er á sama tíma besta og skrítnasta hópefli sem ég hef nokkurn tímann tekið þátt í. Við erum allavega spennt og hlökkum til að veita frábæra þjónustu og elda góðan mat.“

Kokkarnir að bera saman bækur sínar á barnum í FLOTINU 2024

Ingibjörg segir fólk greinilega spennt fyrir þessum viðburði en vel er bókað og aðeins örfá sæti laus. „Þau eru að fyllast hratt hjá okkur, mun hraðar en síðast. „Ég veit ekki hvort að fólk hafi svona mikla trú á okkur eða einmitt ekki - og bíður eftir að fylgjast með raunverulega flotinu. Því það mun klárlega gerast! En það verður að fá að koma í ljós.“

Nýjast