Keppni á Andrésar Andar leikunum á skíðum hafin

Glaðbeittir þátttakendur frá Akureyri í skrúðgöngunni í gærkvöld. Myndir: Þórir Tryggvason.
Glaðbeittir þátttakendur frá Akureyri í skrúðgöngunni í gærkvöld. Myndir: Þórir Tryggvason.

Það ríkti sannkölluð hátíðarstemmning á Akureyri í gærkvöld, þegar 37. Andrésar Andar leikarnir á skíðum voru formlega settir, eftir glæsilega og fjölmenna skrúðgöngu frá Glerártorgi niður á Ráðhústorg, þar sem mótseldurinn var kveiktur. Katrín Kristjánsdóttir skíðakona úr SKA og Íslandsmeistari í stórsvigi setti leikana. Keppni hófst svo í Hlíðarfjalli nú kl. 9.00, í stórsvigi í flokki 13-14 ára.  Um 660 keppendum, frá helstu skíðafélögum landsins, taka þátt í leikunum í ár og er það svipaður fjöldi og var í fyrra. Nægur snjór er í Hlíðarfjalli og spáin ágæt fyrir næstu daga. Að vanda verður keppt í alpagreinum (svigi og stórsvigi) og skíðagöngu og þá verður einnig sú nýjung í ár að keppt verður á snjóbretti. Segja má að sú nýjung sé í takt við tímann en sjóbrettaiðkun hér á landi hefur sótt hratt í sig veðrið undanfarin ár. Ráðgert er að 30 keppendur muni spreyta sig í keppni á snjóbretti og verður keppt í tveimur greinum. Verðlaunaafhending og kvöldvaka verður eftir hvern keppnisdag en mótslit verða kl. 15:00 á laugardaginn.

 

Nýjast