Þetta leggst bara vel í mig og vonandi náum við að rífa okkur upp eftir síðasta leik, segir Páll Viðar Gíslason þjálfari Þórs, en norðanmenn fá Víking frá Ólafsvík í heimsókn á Þórsvöll í dag í 1. deild karla í knattspyrnu og hefst leikurinn kl. 13:00. Víkingur hefur byrjað tímabilið vel og hefur sjö stig í öðru sæti deildarinnar eftir fyrstu þrjár umferðirnar; unnið tvo leiki og gert eitt jafntefli. Þórsarar hafa sex stig í þriðja sæti en eftir sigra í fyrstu tveimur leikjum sínum, sem báðir voru á heimavelli, mátti Þór sætta sig við 0-1 tap gegn Haukum sl. helgi á útivelli. Takist öðru hvoru liðinu að sigra á Þórsvelli í dag kemst það í toppsæti deildarinnar.
KA leikur sinn þriðja útileik í fyrstu fjórum umferðum deildarinnar er liðið sækir Fjölni heim í dag kl. 16:00. KA er með fjögur stig í sjötta sæti og Fjölnir er á svipuðum slóðum með fimm stig í fjórða sæti deildarinnar. Fjölnir burstaði ÍR, 5-0, á útivelli í síðustu umferð á meðan KA gerði 1-1 jafntefli við Víking R. á heimavelli.
Það er ljóst að við erum að fara mæta funheitu Fjölnisliði um helgina og þetta verður erfitt verkefni. Þetta er enn einn útileikurinn en við munum spila marga útileiki í fyrri umferðinni en eigum fyrir vikið fleiri heimaleiki inni í þeirri seinni. Við verðum að reyna að komast þokkalega frá þessum útileikjum og kroppa í stig, segir Gunnlaugur Jónsson þjálfari KA um leikinn í dag. Þess má geta að leikur Fjölnis og KA er sýndur beint á vefnum sporttv.is.