Nýlega var starf sveitarstjóra Norðurþings auglýst laust til umsóknar. Umsóknarfrestur rann út 26. júní síðastliðinn. Alls sóttu 17 um stöðuna og fimm drógu umsókn sína til baka.
Í tilkynningu sem send var á fjölmiðla rétt í þessu kemur fram að ákveðið hafi verið að ráða Katrínu Sigurjónsdóttur sem sveitarstjóra Norðurþings og muni hún hefja störf í upphafi ágústmánaðar.
Katrín er fædd árið 1968 og er fyrrverandi sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar. Áður starfaði hún sem framkvæmdastjóri Sölku-fiskmiðlunar hf. auk þess að hafa verið kjörinn fulltrúi í sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar. Þá hefur hún stundað nám í rekstrar- og viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri.
Ráðningarsamningur tekur formlega gildi þegar hann hefur verið staðfestur á fundi byggðarráðs Norðurþings.
„Ég er þakklát sveitarstjórn fyrir það traust að ráða mig í starf sveitarstjóra Norðurþings. Mér finnst Norðurþing mjög spennandi sveitarfélag, víðfemt og þar er mikil náttúrufegurð. Hvað varðar atvinnumál og uppbyggingu sé ég mikil tækifæri víða í sveitarfélaginu og ég hef fylgst að hluta til með því sem er í gangi í gegnum fundargerðir og íbúafundi. Ég hlakka mikið til að vinna fyrir sveitarfélagið og fylgja eftir samþykktum og áætlunum sveitarstjórnar. Þá finnst mér spennandi að flytjast í Norðurþing og kynnast nýju samfélagi. Það verður gott að koma að loknu sumarfríi og takast á við ný og spennandi verkefni með samstarfsfólki, sveitarstjórn og íbúum Norðurþings,“ segir Katrín.