Bæjarstjórn Akureyrar hefur falið umhverfis- og mannvirkjaráði að afla frekari gagna um mengun frá skemmtiferðaskipum í Akureyrarhöfn. Preben Jón Pétursson oddviti Bjartrar framtíðar í bæjarstjórn Akureyrar óskaði eftir umræðu um mengun skipa sem leggja að í höfninni á síðasta bæjarstjórnarfundi.
„Þessi mál hafa ekki verið skoðuð til hlýtar og ef við ætlum að vera umhverfisbær og kolefnisjafna andrúmsloftið, þá er þetta hluti að því; að kanna frekar mengun skipa,“ segir Preben. Mengun hefur verið talsvert í umræðunni í þjóðfélaginu og segir Preben að skortur sé á staðreyndum um þessi mál.
„Til þess að geta tekið ákvörðun þarf að vita allar staðreyndir og hvernig hægt sé að bregðast við. Okkur leyfist ekkert að segja pass í þessu máli.“
Vegna umræðu um mengun skemmtiferðaskipa mun Umhverfisstofnun hefja eftirlit með eldsneytisnotkun skipa á næstunni, með sérstaka áherslu á brennisteinsinnihald. Stefnt er að því að eftirlitið hefjist núna fyrir áramót. Næsta sumar er svo stefnt á að gera sérstaka rannsókn til að staðreyna hvers konar olíu skemmtiferðaskip sem hingað koma eru að brenna.
Preben Jón vill að ýmsir möguleikar séu kannaðir til að sporna gegn mengun.
„Það er nauðsynlegt að gera verkfræðilega úttekt á þessu máli, hvernig staðan er, hvað sé hægt að gera og vinna þetta hratt,“ segir Preben.