Í farteskinu hefur Hymnodia þá tónlist íslenskra kvenna sem kórinn gaf út á plötu á síðastliðnu ári og hlaut mjög góða dóma fyrir. Auk þess hefur kórinn látið semja tvö ný verk sem frumflutt verða í ferðinni, verkið Blíða eftir Karólínu Eiríksdóttur og Þann heilaga kross eftir Önnu S. Þorvaldsdóttur.
Verkin verða þó frumflutt áður en kórinn heldur utan og það á nýstárlegum tónleikastað. Hymnodia hefur fengið inni í Rúðuborg, glerhýsi Orkuveitu Reykjavíkur í Elliðaárdal, við hlið gömlu Elliðaárstöðvarinnar. Tónleikarnir verða þriðjudagskvöldið 8. september og hefjast kl. 20.00