KA vann Þór í nágrannaslagnum

KA lagði Þór 2-0 í Akureyrarslagnum í 1. deild karla í knattspyrnu á Akureyrarvelli í kvöld. Töluverður fjöldi áhorfenda sótti leikinn í blíðskapar veðri. Frábær stemmning var á leiknum þar sem stuðningsmannalið liðanna, Vinir Sagga hjá KA og Mjölnismenn hjá Þór héldu uppi mikilli og skemmtilegri stemmningu. Innanvallar var nokkuð jafnræði var með liðunum allan tímann en KA menn spiluðu gríðarlega skipulagðan varnarleik sem Þórsarar áttu engin svör við.

Fátt frásagnarvert gerðist í leiknum þar til á 19. mín. þegar Andri Fannar Stefánsson, KA-maður, skoraði stórglæsilegt mark þegar hann fékk boltann á lofti rétt utan teigs og sendi hann í samskeytin og inn á marki Þórsara. Næstu mínútur voru rólegar en á 38. mín. fékk Haukur Heiðar Hauksson leikmaður KA dauðafæri í teignum eftir fyrirgjöf frá Dean Martin en hitti boltann illa og yfir markið fór hann. Stuttu síðar fékk Sveinn Elías Jónsson leikmaður Þórs ágætis færi þegar hann komst einn gegn Matus Sandor markverði KA í frekar þröngri stöðu en skot hans fór rétt framhjá markinu.

Í hálfleik var staðan 1-0 KA-mönnum í vil en Þórsarar áttu fyrsta færið í síðari hálfleik og sitt besta í leiknum þegar Matus Sandor varði glæsilega skot Lárusar Orra Sigurðssonar úr vítateignum á 57. mín. Á 60. mín. fékk Dean Martin mjög gott færi í vítateig Þórsara eftir góðan undirbúning Steins Gunnarssonar en Dean hitti boltann illa og boltinn fór langt framhjá Þórsmarkinu.  Þetta kom þó ekki að sök fyrir KA-menn því um átta mínútum síðar skoraði Norbert Farkas annað mark liðsins með skoti sem fór í gegnum mikla þvögu í vítateignum og alla leið í markið. Fátt fleira markvert gerðist í leiknum eftir þetta, Steinn Gunnarsson leikmaður KA fékk eitt gott færi á að skora þriðja mark síns liðs en Atli Rúnarsson, markvörður Þórs sá við honum. Lokatölur 2-0 fyrir KA.

,,Ég er mjög sáttur við strákana í kvöld, við spiluðum agaðan varnarleik og nýttum okkar sóknir ágætlega. Þórsaranir áttu fá svör við okkar leik í kvöld en við getum spilað betur en í kvöld samt sem áður," sagði Dean Martin, þjálfari og leikmaður KA eftir leik.

Atli Már Rúnarsson markvörður og aðstoðarþjálfari Þórs var ekki jafn kátur og Dean eftir leikinn. ,,Nei þetta var ekki gott, ég var að vonast eftir að við myndum sína stöðuleika og fylgja eftir góðum leik gegn ÍA en svo fór aldeilis ekki. Þeir spiluðu mjög skynsaman varnarleik og við enduðum alltaf á því að negla háum boltum fram völlinn sem var ekki líklegt til árangurs."

Nýjast