KA gerði sér lítið fyrir og skellti liði HK, 3-1, í KA-heimilinu í Mikasa-deild karla í blaki um helgina. KA vann fyrstu hrinuna 25-20, HK þá næstu 26-24 en KA næstu tvær, 25-16 og 25-22. Piotr Kempisty skoraði 28 stig fyrir KA, Davíð Búi Halldórsson ellefu stig og Valur Traustason sjö stig. Þetta var aðeins annar sigur KA í deildinni í vetur og er liðið með sex stig í neðsta sæti. Sigur KA gerir það einnig að verkum að Stjarnan á deildarmeistaratitilinn vísan, en liðið hefur 21 stig á toppnum, fimm stigum meira en HK sem hefur sextán stig í öðru sæti, þegar þrjár umferðir eru eftir.
Í Mikasa-deild kvenna mátti KA sætta sig við tap gegn Aftureldingu, 0-3, á heimavelli. Afturelding vann hrinurnar 25-12, 25-13 og 25-11. Auður Anna Jónsdóttir var stigahæst hjá KA með þrettán stig en í liði gestanna skoraði Sahariana Filipova þrettán stig og Miglana Apostolova níu stig. KA situr á botninum með eitt stig en Afturelding hefur 24 stig í öðru sæti.