KA og Þór mætast í nágranna- slag í fótboltanum í kvöld

KA og Þór mætast í kvöld í 1. deild karla í knattspyrnu á Akureyrarvellinum kl. 19:15. Eins og venja er þegar um nágrannaslag þessara liða er að ræða er mikil spenna í loftinu enda ræður leikur sem þessi úrslitum um hverjir ráða hér í bæ, fram að næsta leik í það minnsta. Vikudagur sló á þráðinn til fyrirliða liðanna, Arnars Más Guðjónssonar hjá KA og Hreins Hringssonar hjá Þór og spurði þá út í leikinn sem framundan er.  

„Við KA-menn erum mjög spenntir fyrir leiknum og hann leggst vel í okkur, við náðum fínum úrslitum við erfiðar aðstæður á erfiðum útivelli í síðasta leik og mætum fullir sjálfstrausts í þennan leik," sagði Arnar Már. Hann segir það ekki hafa áhrif á KA-menn að liðið hafi ekki náð að vinna Þór í síðustu þremur innbyrðisviðureignum liðanna. „Nei það þá frekar hvetur okkur ennþá meira til að vilja vinna þá. Þetta eru allaf spennuleikir og spennustig leikmanna er hærra en í venjulegum leikjum og því kannski aðeins meiri harka en við ætlum okkur sigur og ekkert annað," sagði Arnar Már.

Hreinn Hringsson, fyrirliði Þórs tók í sama streng og kollegi hans hjá KA. „Já það er alltaf hátt spennustig hjá leikmönnum í þessum leik, hærra en venjulega enda ræður þessi leikur úrslitum um hvort liðið getur borið höfuðið hátt á næstunni og hvort liðið þarf að fara í felur," sagði Hreinn og brosti. Hann segir góða byrjun síns liðs gegn ÍA um sl. helgi gefa liðinu aukið sjálfstraust og er þess full viss um að Þórsarar fylgi þeirri byrjun eftir gegn KA. „Við höfum mikið rætt það okkar í milli að sýna meiri stöðugleika en síðustu ár og við ætlum okkur að sjálfsögðu að spila vel gegn KA og viljum ekkert annað en sigur," sagði Hreinn.

Nýjast