Bjarni Pálmason fékk þá boltann inn í teig gestanna og skoraði með ágætu skoti í fjærhornið og kom KA yfir. Eftir markið dofnaði mikið yfir leiknum og lítið markvert sem gerðist, þó voru heimamenn ávallt hættulegri í sínum sóknaraðgerðum. Gestirnir komust lítt áleiðis gegn heimamönnum og sköpuðu sér afar fá færi í fyrri hálfleik.
Staðan 1-0 í hálfleik.
Selfyssingar komu sprækir inn í seinni hálfleikinn en eins og fyrri hálfleik gekk þeim illa að skapa sér marktækifæri. KA- menn fóru að bíta frá sér þegar leið á seinni hálfleikinn. Guðmundur Óli Steingrímsson átti hörkuskot að marki gestanna á 63. mínútu sem fór naumlega yfir markið. Andartaki síðar átti Dean Martin skot að marki Selfyssinga sem varnarmaður gestanna bjargaði á línu.
Á 76. mínútu var Dean Martin nálægt því að skora fyrir KA er hann skallaði boltann í slána. Aðeins mínútu síðar kom seinna mark heimamanna í leiknum. Steinn Gunnarsson, sem var nýkominn inn á sem varamaður, sendi boltann fyrir mark gestanna og þar var mættur David nokkur Disztl sem skallaði boltann í stöngina og inn. Glæsilega gert og KA- menn komnir í 2-0.
Selfyssingar náðu lítið að ógna marki KA á lokamínútum leiksins og lokatölur 2-0 sigur heimamamanna. Eftir sigurinn er KA komið í þriðja sæti deildarinnar með 20 stig.