Jólaverslunin heldur meiri en í fyrra

Jólaverslun í matvöruverslunum virðist vera aðeins meiri nú fyrir jólin en í fyrra. Um það eru verslunarstjórar í þremur verslunum á Akureyri sammála.  Framundan eru stórir dagar í verslunum, vaxandi þungi færist yfir nú um helgina og má búast við miklum fjölda viðskiptavina í matvöruverslunum alla næstu viku, þá síðstu fyrir jól.

„Það hefur gengið mjög vel fram til þessa og  mjög stórir dagar framundan, það má búast við að mikið verði að gera hér hjá okkur næstu daga,“ segir Þórhalla Þórhallsdóttir verslunarstjóri í Hagkaup.  Hún segir verslun það sem af er heldur meiri en var á sama tíma í fyrra, fleiri viðskiptavinir hafi lagt leið sína í verslunina. „Mér fannst fólk byrja að huga að jólunum fyrr en oft áður, það vill dreifa álaginu yfir lengri tíma sem er skynsamlegt,“ segir Þórhalla.  Hún kveðst ekki verða vör við annað en hópur fóllks hafi þó nokkra peninga á milli handanna og telur að fjölmiðlar dragi oft upp neikvæða mynd af ástandinu, sem smiti út frá sér.  „Við verðum ekki vör við annað en að fólk sem hingað kemur sé jákvætt og þyki þessir desemberdagar dásamlegir,“ segir hún.

Jón Ævar Sveinbjörnsson verslunarstjóri í Bónus við Langholt segir að viðskiptavinum hafi fjölgað og að ívið meira hafi verið keypt nú miðað við sama tíma í fyrra.  „Þetta er nokkuð áþekkt og í fyrra, en heldur meira þó.  Við höfum fengið fleiri viðskiptavini en áður og margir koma um langan veg,“ segir Jón Ævar. Hann segir að veður og færð næstu daga skipti verulegu máli, en alkunna sé að fólk úr nágrannabyggðum leggi leið sína til Akureyrar að versla fyrir jól. „Við getum ekki verið annað en bjartsýn, það eru stórir dagar framundan,“ segir hann.

Sigurður Örn Kristjánsson verslunarstjóri í Nettó tekur í sama streng og segir jólaverslun heldur meiri en á sama tíma í fyrra. Árlegir Kaupdagar KEA sem jafnan eru í byrjun desember og veita góðan afslátt dragi mikinn fjölda viðskiptavina að, sumir komi langt að til að nýta sér tilboðin sem í gangi séu.  „Það hefur gengið ótrúlega vel og við eigum von á að næstu daga verði fjöldi manns á ferðinni í versluninni. Fólk kann að meta jólahúsið okkar, sem við setjum upp í desember, en þar bjóðum við upp á hefðbundnar jólakjötvörur,“ segir Sigurður. Hann segir að sér sýnst sem viðskiptavinir kaupi meira fyrir jólin nú en undanfarin ár og þá hafi viðskiptavinum einnig fjölgað.  „Við getum ekki annað en verið sátt við það,“ segir hann.

 

Nýjast