Bæjarráð Akureyrar hefur samþykkt tillögu um að jólatorg verði sett upp í miðbæ Akureyrar fyrir jólin 2025. Jafnframt samþykkti bæjarráðs að veita aukið svigrúm í áætlun ársins til að mæta kostnaði vegna verkefnisins og fól sviðsstjóra fjársýslusviðs að vinna viðauka upp á 3,3 milljónir króna.
Bæjarráð fjallaði um minnisblað sem fyrir lá frá forstöðumanni atvinnu-, menningar-, og markaðsmála með upplýsingum um framkvæmd og kostnað vegna ársins 2024 og tillaga að fyrirkomulagi og kostnaðaráætlun vegna 2025. Ekki hafði verið gert ráð fyrir áframhaldi þessa verkefnis við fjárhagsáætlunargerð yfirstandandi árs.
Bæjarbúar kunnu að meta stemmninguna í miðbænum
Jólatorginu var afar vel tekið og aðsókn mjög góð, en greinilegt að skemmtiatriði og koma jólasveina og hvolpasveitar voru mjög hvetjandi þættir að því er fram kemur í minnisblaði. Einnig að framtakið hafi glatt bæjarbúa og þá sem heimsóttu jólatorgið sem kunnu vel að meta jólaandann og stemmninguna sem það gaf miðbænum.
Markaðurinn sjálfur var ekki stór í þessari fyrstu tilraun, leigð voru fjögur hús af Exton og gátu tveir söluaðilar verið í hverju húsi en vilji var til. Heildarkostnaður fór talsvert yfir upprunalega grófa kostnaðaráætlun, en hann varð 7,7 milljónir króna í heildina. Þar má nefna flutning á húsum frá Reykjavík, skemmtiatriði, skreytingar, hljóðkerfi og svið, tónlist, jólasveinar, markaðsmál og auglýsingar.
Gera má ráð fyrir að kostnaður við að endurtaka leikinn verði talsvert lægri. Hafnarsamlag Norðurlands fest kaup á litlum söluhúsum sem jólatorgið getur fengið aðgang að með minni kostnaði en leiguhúsin í fyrra. Þá er skraut og seríur til sem og hlið að þorpinu. Í ár er gert ráð fyrir að kostnaður nemi um 6 milljónum króna.