Álögur á heimili og fyrirtæki hafa aukist verulega á kjörtímabilinu

S skrifarunna Hlín Jóhannesdóttir oddviti Framsóknar á Akureyri
S skrifarunna Hlín Jóhannesdóttir oddviti Framsóknar á Akureyri

Það er hlutverk sveitarfélaga að tryggja sanngjarna skattlagningu sem endurspeglar raunverulega stöðu íbúa og atvinnulífs.

Á kjörtímabilinu höfum við lagt áherslu á að bregðast við ósanngjörnum hækkunum á fasteignaskatti sem hafa bitnað á heimilum og fyrirtækjum og eru tilkomnar vegna mikilla hækkana á fasteignamati á undanförnum árum. Til að mæta þessari þróun og breyttu vaxtaumhverfi hafa bæjarfulltrúar Framsóknar lagt fram tillögur um að sveitarfélagið lækki sín álagningarviðmið, þannig að íbúar og fyrirtæki greiði ekki hærri fasteignaskatta milli ára en sem nemur verðbólgu ársins.

Hækkun fasteignamats kallar á aðgerðir

 Mynd: Byggðastofnun. Hér vantar þó árið 2026 en hækkun á fasteignamati milli ára er þá 9,2.

Fasteignamat á Akureyri hefur hækkað verulega frá árinu 2022 eða um 60% á kjörtímabilinu. Þrátt fyrir þetta hefur álagningarprósentan aðeins einu sinni verið lækkuð á kjörtímabilinu, og þá aðeins óverulega fyrir íbúðarhúsnæði, en ekkert fyrir atvinnuhúsnæði. Þessar breytingar hafa haft í för með sér mikla hækkun fasteignaskatta á bæði heimili og fyrirtæki.

Tillaga að lækkun fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði í takt við lækkun á íbúðahúsnæði

Við afgreiðslu fasteignagjalda í bæjarráði lögðum við bæjarfulltrúar Framsóknar fram tillögu þess efnis að fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði verði lækkaður um fjóra punkta í stað tveggja, úr 1,63% í 1,59%. Með þessari breytingu yrði hækkun fasteignaskatts í takt við verðbólgu ársins, líkt og íbúahúsnæði. Frá árinu 2022 hefur fasteignamat atvinnuhúsnæðis á Akureyri hækkað um 44%, og hefur skattbyrði fyrirtækja því aukist verulega án þess að álagningarhlutfallið hafi verið endurskoðað í samræmi við þær breytingar og krefjandi rekstrarumhverfi í háu vaxtaumhverfi.

Sanngirni og stöðugleiki í fyrirrúmi

Markmið Framsóknar er að stuðla að heilbrigðu og sjálfbæru rekstrarumhverfi sveitarfélagsins og sýna ráðdeild í rekstri til að koma til móts við hækkandi álögur á íbúa og fyrirtæki. Hluti af því er að bregðast við hækkunum á fasteignamati.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir oddviti Framsóknar á Akureyri.

Nýjast