Elínborg Snorradóttir, alltaf kölluð Lóa, er 86 ára Akureyringur sem hefur verið búsett fyrir vestan síðan 1958. Lóa ákvað að koma eitt sumar vestur að Mjólká við Arnarfjörð þar sem faðir hennar starfaði, þetta átti bara að vera eitt sumar. Þar kynnist hún Bergsveini Gíslasyni og þau byrjuðu fljótlega að búa og settust síðan að Mýrum í Dýrafirði árið 1961. Þar bjuggu þau í 61 ár eða þar til árið 2022 þegar Bersveinn lést. Þá flutti Lóa á elliheimilið Hlíf á Ísafirði og þar unir hún sér vel.
Það eru fáir jafn lífsglaðir og Lóa og hún er mikil tónlistarkona og spilar á harmonikku, gítar og orgel. Tónlistaruppeldið má rekja til Akureyrar þar sem hún ólst upp. Hún flutti til Akureyrar þegar hún var 3ja ára gömul á Gilsbakkaveg 5. Ingimar Eydal og Guðfinna Jónsdóttir (amma og afi Ingimars Eydal tónlistarmanns) og dóttir þeirra, Þyrí Eydal píanókennari, bjuggu líka í húsinu.
Heillaðist af tónlistinni
Þyrí spilaði mikið af tónlist og mikið líf á heimilinu. Hún man vel eftir því að hún og Elínborg, dóttir Þyríar, léku sér á gólfinu á meðan Þyrí kenndi Ingimari og Finni Eydal á píanó. Lóa heillaðist strax af píanóinu og lærði þar af henni og í kjölfarið á orgel og harmonikku.
-Við settumst niður og drukkum kaffi og ég spurði hana hvernig jólin hafi verið fyrir norðan í þá daga.
„Ég man alltaf eftir jólatrénu niðri á torgi á Akureyri, stærðar jólatré. Það var náttúrulega gengið í kringum jólatréð og sungið. Svo man ég líka eftir því að við fórum á Hótel Norðurland, þar var jólatré og jólaskemmtun. Það var mjög gaman. Síðan var náttúrulega jólatré í skólanum en ég gekk í barnaskólann á Brekkunni. Þar var mikið dansað og jólasöngvarnir sungnir.“
Valash-appelsín með jólamatnum
-Hvernig voru jólin í þá daga hjá ykkur, helstu hefðir og hvað var í matinn?
„Það var alltaf farið í messu klukkan sex, pabbi var nú ekki strangtrúaður en á jólum fórum við í kirkju. Það var síðan alltaf lambahryggur í matinn. Síðan var laufabrauðið alveg fastur liður og með kúmeni, er ekki borðandi öðruvísi en er ekki til siðs fyrir vestan. Ég gerði laufabrauð og skar út. Síðan drukkum við alltaf Valash-appelsín með jólamatnum.“
-Hvernig var svo heimilið; var það mikið skreytt og mikið af pökkum?
„Jólatréð var alltaf ógurlega fallegt og fallega skreytt. Það var alltaf fullt af pökkum því gjöfunum var pakkað inn í fallegan pappír sem maður keypti niðrí bæ. Við bjuggum í þríbýli. Ingimar Eydal gamli og Guðfinna konan hans bjuggu á tveimur hæðum en við og svo Þyrí Eydal í risinu. Ég man alltaf hvað jólatréð var fallegt hjá Þyrí, rosa fallegt. Þyrí spilaði svo á píanóið og við sungum jólasöngva, ég og dóttir hennar, Elínborg. “
Skíði í jólagjöf
-Manstu eftir einhverri fallegri gjöf sem þú fékkst á jólunum?
„Já, ég man eftir að ég fékk skíði í jólagjöf eitt árið. Ef maður labbaði aðeins upp Gilsbakkaveginn að Frímúrarahúsinu, var hægt að renna sér alveg niður á horn, alveg niður að tröppunum sem lágu niður í KEA-portið.“
Lóa vill skila kærri kveðju norður og segir að það hafi verið yndislegt að búa og alast upp fyrir norðan.

Eyþór Bjarnason/EB
Greinarhöfundur er nemi á 2. ári í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri (HA). Þessi grein er hluti af lokaverkefni í áfanganum, samkvæmt samningi milli Vikublaðsins og HA.