Kór og orgel sameinast í hátíðlegum og ljóðrænum tónum í Akureyrarkirkju sunnudaginn 9. nóvember. Kórarnir Hymnodia og Kammerkór Norðurlands sameinast í söng undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar en Eyþór Ingi Jónsson mun spila á orgel.
Á efnisskránni verður fjölbreytt íslensk tónlist eftir Báru Grímsdóttur, Jón Nordal og Þorvald Örn Davíðsson, sem og hin mikilfenglega Missa Brevis eftir Zoltán Kodály (1882-1967). Missa Brevis var frumflutt í óperuhúsinu í Búdapest þann 11. febrúar árið 1945. Borgin var umsetin stórskotaliði Rauða hersins og rigndi sprengjunum látlaust yfir borgina en óperuhúsið hafði á einhvern undraverðan hátt staðið árásirnar af sér. Frumflutningurinn átti sér stað í fatahenginu sem hafði verið breytt í lítinn tónleikasal. Þar sungu óperusöngvarar borgarinnar við undirleik harmoníums en þessar aðstæður skýra líklega undirtitil verksins sem er „á stríðstímum.“
Það sem öðru fremur einkennir verkið er tilfinningaþunginn sem ofinn er í tónvefnaðinn og dregur fram örvæntingu, löngun og þrá eftir betri og friðsælli heimi. Í lokin hljómar bæn um frið sem klifuð er svo að angistin verður allt að því óbærileg. Vonin og trúin sigra að lokum þar sem bænin er send með von og gleði í hjarta upp til himna. Sá kafli verður hér fluttur í upprunalegri mynd sem öflugt orgeleftirspil. Verið hjartanlega velkomin í Akureyrarkirkju - kirkju Matthíasar Jochumssonar sunnudaginn 9. nóvember kl. 17:00. Miðaverð er 5000 krónur.
Miðasala fer fram við innganginn.