Sláturtíð lauk á Húsavík, 31 október s.l. og var alls 88.277 fjár slátrað að þessu sinni, 79.330 lömbum, 8.847 fullorðnum og 100 geitum. Þetta er samtals 2.580 fleira en var árið 2024.
Sigmundur Hreiðarsson framleiðslustjóri hjá Kjarnafæði Norðlenska á sláturhúsinu á Húsavík segir að mestu muni um lokun sláturhússins á Blönduósi. Ef það hefði verið starfandi, hefði mátt gera ráð fyrir að slátrun á Húsavík hefði verið um 80.000 í allt.
Meðalþyngd þetta árið er 16.95 kg, sem að er sú fjórða hæsta í sögunni á Húsavík, gerðin var 9,37 sem að er sú hæsta frá upphafi og segir Sigmundur að hrósa beri bændum fyrir sitt góða starf.
Allir að gera sitt besta
„Heilt yfir gekk þetta mjög vel, auðvitað koma upp alls konar óvænt verkefni bæði hvað varðar tæki, tól og mannskap, en blessunarlega, þá erum við með mjög öflugt starfsfólk hér til að leysa úr þeim málum, sem upp koma,“ segir Sigmundur.
Sigmundur vill nota tækifærið og þakka öllu því starfsfólki sem starfaði í húsinu á liðnu hausti fyrir vel unnin störf, sem og verktökum, tengiliðum í sveitum og síðast en ekki síst bændum sjálfum, „því án þeirra væri nú ekki mikið um að vera hér hjá okkur.“
Áhyggjuefni
Á árunum 2020 til 2024 dróst slátrun saman um rúmlega 89.000 fjár á landsvísu, svo það má gera ráð fyrir að talan, eftir þetta árið verði orðin allt að 100.000. „Þetta er grafalvarlegt mál hvað varðar búsetu í sveitum landsins, ásamt nýtingu á sláturhúsum,“ segir Sigmundur.
Hann bendir á að innflutningur á lambakjöti hafi aukist og var sem dæmi á annað hundrað tonn árið 2024,að mestu leyti vöðvar. „Þetta er enn ein ógnunin við íslenska sauðfjárbændur. Ég tel að ansi margir séu að selja þetta kjöt án þess að taka fram frá hvaða landi það kemur. Ferðamenn sem hingað koma og panta lambakjöt á veitingastöðum eru í góðri trú um að kjötið hér íslenskt en svo er allt ekki í öllum tilvikum.