Erindi um hvort heimilt sé að nýta efri hæðir í húsi sem byggt verður á lóð við Baldursnes 11 fyrir rekstur starfsmannaíbúða til tímabundinnar búsetu, alls 28 íbúða hefur borist til skipulagsráðs Akureyrar. Lóðarhafi við Baldursnes er að því er fram kemur í erindinu öflugur verktaki á Akureyri „og hefur oft á tíðum mikla þörf vinnuafl sem ekki fyrirfinnst hér á Eyjafjarðarsvæðinu,“ eins og það er orðað.
Deiliskipulagsbreyting vegna lóðarinnar við Baldursnes 11 er í kynningarferli, en Kollgáta sem sendi erindið inn fyrir hönd lóðarhafa óskar eftir viðbrögðum við breytingum á skilmálum lóðarinnar sem snúa að starfsemi á lóðinni. Óskað er nú eftir því að á efri hæðum.
Áform lóðarhafa standa til þess að byggja á lóðinni þrískipta byggingu sem samanstendur af þremur húskroppum, A-B-C. Syðst á lóðinni er stálgrindarbygging (byggingarhluti A), en hún hýsir 4 Padeltennisvelli og auk þess er kjallari undir suðurendanum ætlaður fyrir atvinnustarfsemi. Við norðurenda hennar komi einnar hæðar tengibygging (byggingarhluti B) og hýsir hún aðalinngang, búningsklefa fyrir íþróttasalinn og svo einnig tæknirými.
Við norðurhlið tengibyggingar komi síðan 5 hæða bygging (byggingarhluti B). Í henni verður verslun á 1.hæð. með aðgengi frá austur og norðurhliðum en á efri hæðum (2.-5.h) verður aðstaða til starfsmannagistingar og/eða stúdentagistingar. Aðkoma að 2.hæð hússins er frá vesturhlið byggingarhlutans og verði því aðgreindur frá verslunar- og þjónustuhluta hússins. Sjö íbúðarherbergi eru á hverri hæð auk lyftuhúss og stigahúss í suð-vesturhorni og flóttastiga við austurhlið.
Alls verði 28 starfsmannaíbúðir í húsinu.
Að mati skipulagsráðs samræmist það ákvæðum breytingar á aðalskipulagi Akureyrar sem samþykkt var í bæjarstjórn 21. október sl. að vera með starfsmannabústaði á athafnalóðum. Ráðið tekur því jákvætt í að reistir verði starfsmannabústaðir á lóðinni.