Jólagarðurinn og Breiðablik fengu umhverfisverðlaun Eyjafjarðarsveitar

Benedikt, Ragnheiður og Brynhildur.
Benedikt, Ragnheiður og Brynhildur.

Umhverfisverðlaun Eyjafjarðarsveitar árið 2011 voru afhent í dag og fór athöfnin fram á skrifstofu sveitarstjórnar á Hrafnagili. Verðlaunin að þessu sinni fengu íbúðarhúsið Breiðablik og Jólagarðurinn. Eigendur Breiðbliks eru þau Eiríkur Sveinsson og Rannveig Ingvarsdóttir en eigendur Jólagarðsins þau Ragnheiður Hreiðarsdóttir og Benedikt Grétarsson.

Í umsögn dómnefndar um Breiðablik segir m.a. að Eiríkur og Rannveig hafi flutt í sveitina fyrir tíu árum og síðan þá hafi þau ræktað lóð sína af mikilli eljusemi og hirt hana vel. Áður en þau tóku til við sína uppbyggingu og ræktun var þetta svæði einungis harður melur. Í dag er garðurinn þeirra vel hirtur, með fjölbreyttu gróðurúrvali og fallegri aðkomu.

Í umsögn dómnefndar um Jólagarðinn segir að hann hafi verið stofnaður árið 1995 og hafi vaxið og dafnað mikið síðan. Þangað komi árlega þúsundir gesta og því skapist töluvert álag á umhverfi staðarins. Umgengni hafi hins vegar verið til fyrirmyndar og megi efalítið þakka það eigendunum sem af mikilli eljusemi hafi unnið ötullega að uppbyggingu staðarins frá upphafi. Garðurinn sem umlykur Jólahúsið sjálft sé vel hirtur, þar eru bekkir sem hægt er að setjast á og njóta umhverfisins.

 

Nýjast