Jól í skókassa

Enn á ný er kvatt til þátttöku í verkefninu Jól í skókassa
Enn á ný er kvatt til þátttöku í verkefninu Jól í skókassa

Enn á ný er kvatt til þátttöku í verkefninu Jól í skókassa. Þetta er tuttugasta og annað árið í röð sem það er haldið. Á þessum rúmlega 20 árum höfum við sent börnum og ungmennum í Úkraínu um það bil eitt hundrað þúsund jólagjafir.

Þau sem fá slíka gjöf eru einstaklingar sem búa við fátækt, sjúkdóma, munaðarleysi og aðrar þær aðstæður sem gerir líf þeirra erfitt. Við fáum á hverjum degi fréttir af stríði í Úkraínu sem bætist ofan á allt annað. Fólk hefur flúið svæði þar sem bardagar eiga sér stað og sprengjum er varpað á mörg svæði í landinu. Börn eru oftar en ekki fórnarlömb í slíkum aðstæðum. Þegar verkefnið hófst upp úr síðustu aldamótum var ástandið afar erfitt í landinu. Hvað þá núna. Svo þörfin hefur aldrei verið meiri.

KFUM og KFUK á Íslandi vinnur þetta verkefni í samstarfi við KFUM í Úkraínu. Hér heima vinnur fjöldi fólks í sjálfboðavinnu við að taka á móti kössum, flokka þá og yfirfara og pakka þeim í gám sem sendur er út til Úkraínu um miðjan nóvember. Eimskip hefur styrkt verkefnið varðandi flutning til meginlandsins þaðan sem gámurinn er gjarna fluttur á bíl á áfangastað. Þar taka sjálfboðaliðar á móti varningunum og sjá um dreifingu. Þau hafa mjög góða vitneskju um hvar gjafirnar eiga best heima þannig að allir pakkar skila sér á rétta staði.

Á heimasíðu verkefnisins má finna allar frekari upplýsingar um verkefnið og um móttökustaði og dagsetningar, www.skokassar.is. Einnig á facebook síðu verkefnisins.

Frá þessu segir í tilkynningu

Nýjast