Fjölmennur aðalfundur Félags málmiðnaðarmanna Akureyri var haldinn í dag og var Jóhann R. Sigurðsson kjörinn nýr formaður. Fráfarandi formaður,Hákon Hákonarson, hefur gengt því embætti í 36 ár, en hann hefur setið í stjórn félagsins í 44 ár. Hákon verður áfram í stjórn en hefur tekið sæti varaformanns. Þá er Elín J. Bjarnadóttir ný í stjórn félagsins og er hún önnur konan sem tekur sæti í stjórninni. Jóhann formaður er menntaður bifvélavirki og starfar hjá Stillingu á Akureyri. Hann hefur tekið virkan þátt í starfsemi FMA, var síðast varaformaður. Þetta er sannarlega lítið félag með stórt hjarta. Fjárhagsstaðan er góð og ég fullyrði að þjónustan stenst vel samanburð við önnur stéttarfélög. Áhersla hefur verið lögð á að fjármunirnir skili sér til félaganna með ýmsum hætti. Við megum ekki gleyma því að félagið er til fyrir félagsmenn, en ekki öfugt, segir Jóhann.
Hákon Hákonarsonsegir segir að staða málmiðnaðarfyrirtækja á félagssvæðinu sé almennt góð. Félagarnir eru í flestum tilvikum sáttir við starfsemina, það sýnir glögglega ný skoðanakönnun og miklu skiptir að fjárhagsstaða félagsins er mjög traust. Kannski er helsta ástæðan fyrir því að ég hef verið svona lengi í starfinu sú að félagarnir hafa veitt mér nauðsynlegt aðhald, sem ég túlka fyrst og fremst sem stuðning. Að mínu viti hefur félagið alla burði til að vera áfram málsvari fyrir málmiðnaðarmenn á þessu landssvæði, veita víðtæka þjónustu og vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna í góðu samstarfi við önnur samtök launamanna. Stoðirnar eru traustar, en gleymum því ekki að hver og einn félagsmaður er mikilvægur hlekkur í þessari keðju. Þessi tími hefur verið ánægjulegur en á margan hátt krefjandi og gefandi.
Stjórn Félags málmiðnaðarmanna Akureyri skipa:
Jóhann R. Sigurðsson formaður
Hákon Hákonarson varaformaður
Elín J. Bjarnadóttir ritari
Eyþór Jónsson gjaldkeri
Arnþór Örlygsson meðstjórnandi
Brynjólfur Jónsson meðstjórnandi
Jóhann V. Jónsson meðstjórnandi