Jazz á Heitum Fimmtudögum í Deiglunni á Akureyri

Heitir Fimmtudagar á Akureyri eiga orðið fastan sess sem vettvangur góðs jazz á Listasumri á Akureyri og eru þeir samofnir þeirri nær tveggja mánaða listahátíð. Að sönnu munu, nú sem áður, Heitir Fimmtudagar hita mörgum jazzunnandanum og bræða í besta skilningi þess orðs. Jazzklúbbur Akureyrar var og er einn mesti hitagjafi landsins á jazzsviðinu og ekki verður dregið úr kyndingunni í ár!  

Á sumrinu verða í boði níu Heitir fimmtudagar og þar verður boðið til veislu í hvert skipti. M.a. munu söngkonurnar Andrea Gylfadóttir, Heiða Árnadóttir og Ragnheiður Gröndal mæta og Tómas R. lætur sitt ekki eftir liggja frekar en ýmsir aðrir góðir. Jazztónleikarnir eru við það miðaðir að sem flestir jazzáhugamenn geti notið þeirra og eru Heitir Fimmtudagar  löngu orðnir hluti af listalandslagi því sem mörgum gestum bæjarins finnst ómissandi þáttur í heimsókn sinni til Akureyrar. Sveiflukóngurinn og ein frægasta stjarna jazz allra tíma hann Lester Young verður í sviðsljósinu á fyrsta Heitum Fimmtudegi á Listasumri, þann 25. júní kl. 21:30 í Deiglunni. Að sjálfsögðu er við það tækifæri boðið upp á valikunna jazzleikara sem túlka meistara Lester Young, þá: Hauk Gröndal á saxófón, Ásgeir Ásgeirsson á gítar, Erik Qvick á trommur Þorgrím Jónsson á kontrabassa.

Kort sem gilda á 6 tónleika að eigin vali fyrir handhafa hverju sinni (einnig fyrir aðra vini og eða fjölskyldumeðlimi ) sumrin  2009 og 2010 kosta aðeins 500 krónur á hverja tónleika og veita 50% afslátt. Stuðningfyrirtæki og styrktaraðilar Jazzklúbbs Akureyrar vegna Heitra Fimmtudaga eru: Akureyrarstofa, Hjá Guðjóni, Listasumar á Akureyri, Norðurorka, Menningarráð Eyþings, FÍH, Flugfélag Íslands, Rub 23 og Sella ehf., segir í fréttatilkynningu.

Nýjast