Jafn í slag Akureyrar og HK

Akureyri og HK skiptu jöfn í æsispennandi leik í N1 deild karla í handbolta í kvöld í Höllinni á Akureyri. HK jafnaði metin þegar fjórar sekúndur voru til leiksloka en geta samt talið sig klaufa að hafa ekki unnið leikinn því þeir voru með hann í hendi sér þegar stutt var til leiksloka.

Akureyri hafði yfirhöndina í fyrri hálfleik og leiddi 12-11 í leikhléi. Í seinni hálfleik snérist dæmið við HK hafði frumkvæðið en gekk illa að hrista heimamenn af sér. Lengi vel var munurinn á bilinu 2-3 mörk HK í vil og var staðan 22-19 þegar um 12 mínútur lifðu leiks.

Munurinn var enn þrjú mörk 24-21 fyrir gestina þegar ekki nema þrjár og hálf mínúta voru eftir. Árni Sigtryggsson minnkaði þá muninn í 24-22 og HK glataði boltanum fljótlega í næstu sókn sinni. Akureyri brunaði í hraðaupphlaup sem endaði með því að leikmaður HK braut klaufalega á Andra Snæ Stefánssyni og fékk fyrir vikið 2 mín brottvísun þegar tæpar þrjár mín voru til loka leiksins. Goran Gusic skoraði úr vítinu sem var dæmt og munurinn eitt mark. Aftur glataði HK boltanum og eftir stutta og snarpa sókn skoraði Andri Snær jöfnunarmark Akureyrar þegar eina og hálf mínúta var eftir. Enn og aftur klúðraði HK sókn sinni og Goran Gusic kom Akureyri yfir þegar 45 sekúndur voru eftir.

Því miður náði HK hins vegar loksins að nýta sér sókn þegar hornarmaður þeirra skoraði jöfnunarmark leiksins fjórum sekúndum fyrir leikslok og verður að viðurkennast að vörn Akureyrar hefði átt að geta gert betur í því atviki. Lokatölur urðu því 25-25 og verða það að teljast sannjörn úrslit.

Í Vikudegi á morgun er rætt við Árna Stefánsson, Akureyring og núverandi aðstoðarþjálfara HK.

Nýjast