Bókaútgáfan Tindur hefur gefið út bókina Íslensk knattspyrna 2011 eftir Víði Sigurðsson en þetta er 31. árið í röð sem árbók knattspyrnunnar á Íslandi kemur út. Bókin er stærri en nokkru sinni fyrr, 256 blaðsíður og þar af 112 síður í lit, en bækurnar undanfarin ár hafa verið 240 síður og mest 96 þeirra í lit. Hún er prýdd um 370 myndum, m.a. liðsmyndum af sigurvegurum í öllum flokkum á Íslandsmótinu. Fjallað er ítarlega um Íslandsmótið 2011 í öllum deildum og flokkum. Mest um efstu deildir karla og kvenna en einnig um neðri deildirnar og yngri flokkana.
Bikarkeppni karla og kvenna er gerð ítarleg skil, sem og landsleikjum Íslands í öllum aldursflokkum og Evrópuleikjum íslensku liðanna. Þá er fjallað um íslenska atvinnumenn erlendis, önnur mót innanlands og margt fleira sem tengist íslenskum fótbolta á árinu 2011.
Ítarleg viðtöl eru við Bjarna Guðjónsson fyrirliða Íslandsmeistara KR og Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur fyrirliða Íslandsmeistara Stjörnunnar, og rætt við Þorlák Má Árnason sem náði besta árangri með íslenskt landslið frá upphafi þegar U17 ára lið kvenna komst í fjögurra liða úrslit Evrópukeppninnar.
Í bókinni er m.a. opinberað hvaða leikmenn áttu flestar stoðsendingar í efstu deildum karla og kvenna á árinu en viðkomandi leikmenn voru verðlaunaðir af bókaútgáfunni Tindi á kynningarfundi deildarinnar í dag.
Þeir voru eftirtaldir:
Konur:
1. Mateja Zver, Þór/KA, 19 stoðsendingar
2.-3. Soffía Arnþrúður Gunnarsdóttir, Stjörnunni, 11 stoðsendingar
2.-3. Vesna Smiljkovic, Stjörnunni, 11 stoðsendingar
Karlar:
1. Ólafur Páll Snorrason, FH, 10 stoðsendingar
2. Guðmundur Steinarsson, Keflavík, 10 stoðsendingar
3. Bjarni Guðjónsson, KR, 9 stoðsendingar
Heiðursverðlaun Tinds voru afhent í fjórða skipti. Að þessu sinni hlaut þau knattspyrnudeild Stjörnunnar en báðir meistaraflokkar félagsins náðu sínum besta árangri frá upphafi á Íslandsmótinu 2011.