ÍSÍ hlutist til um að gætt sé jafnræðis við úthlutun landsmóta

Stjórn Hestamannafélagsins Funa í Eyjafjarðarsveit hyggst ekki kæra til ÍSÍ þá ákvörðun stjórnar Landssambands hestamanna að setja landsmótin 2014 og 2016 niður á Hellu og Vindheimamelum í Skagafirði en Funi sótti um bæði mótin. Valur Ásmundsson formaður Funa segir hins vegar að félagið muni óska eftir því að ÍSÍ hlutist til um að gætt sé jafnræðis við úthlutun landsmóta.

Valur segir að það sé í gangi ákveðin hagsmunapólitík þegur kemur að því að ákveða landsmótsstað. “Við höfum ekki blandað okkur í þá pólitík, heldur höfum við boðið fram okkar svæði en fáum alltaf á baukinn. Skíðalandsmót og ungmennafélagsmót eru dæmi um mót sem færð eru á milli landssvæða og okkur finnst að þannig eigi því einnig að vera farið með landsmót hestamanna og um það snýst okkar barátta. Við höfum orðið varir við mikil viðbrögð við okkar umsókn og fundið fyrir miklum stuðningi. Öll þessi umræða mun kalla á enn frekari viðbrögð. Þetta kerfi sem er í gangi er hvergi bundið í lög og þetta er mál sem þarf að skoða á næsta landsþingi.”

Valur segir það er umhugsunarefni fyrir hestamenn á norðausturhorninu ef öllu því fjármagni sem ríkið setur í Landsmótsundirbúning er fyrst og fremst ráðstafað á tveimur svæðum sem eru síst betri en Melgerðismelar. Hann segir að Funi hafi mikinn áhuga á því að taka á móti þessum stóra viðburði sem landsmótið er. Þetta sé hins vegar hagsmunamál fyrir marga aðila á Norðurlandi. “Við höfum engan áhuga á því að standa í slag við önnur hestamannafélög og svona togstreita þarf ekki að myndast af LH vinnur faglega og með hagsmuni allra hestamanna fyrir brjósti, án tillits til búsetu,” sagði Valur.

 

Nýjast