Innvigtun á mjólk hefur aukist síðustu ár hjá MS á Akureyri

Innvigtun á mjólk hjá MS á Akureyri hefur aukist töluvert síðustu ár og var aukningin í fyrra 13% frá árinu áður og á sama tímabili tvöfaldaðist velta fyrirtækisins. Innvegin mjólk frá framleiðendum á félagssvæði MS á Akureyri á síðasta ári var tæpar 32 milljónir lítra og til viðbótar var innvegin mjólk frá öðrum svæðum um 3,8 milljónir lítra.  

Um síðustu áramót var jafnframt farið að sækja mjólk frá Akureyri vestur í Húnavatnssýslur. Við þá breytingu munu bætast við um 7,6 milljónir lítra á þessu ári en í Húnvatnssýslum stunda 54 bændur mjólkurframleiðslu. Í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum eru 168 bændur í mjólkurframleiðslu. Norðurmjólk og Mjólkursamsalan sameinuðust 1. janúar 2007 og rekur MS umfangsmikla starfsemi á Akureyri, þar sem starfa um 80 manns. Ekki stendur til að fækka fólki og frekar er unnið að því að stækka og efla starfsemina á Akureyri. Hins vegar er gríðarlega mikil eftirspurn eftir vinnu hjá fyrirtækinu, sem er fjórði stærsti launagreiðandi á Eyjafjarðarsvæðinu. Sölusvæði MS á Akureyri hafi verið stækkað mikið frá sameiningunni og nær nú frá Hrútafirði í vestri og austur á Djúpavog. Fyrir breytinguna náði sölusvæðið frá Siglufirði til Vopnafjarðar.

Nýjast