Ímynd kennara nær hryðjuverkasamtökum en Hróa Hetti

Guðmundur Birkir Þorkelsson, skólameistari Framhaldsskólans á Húsavík, var ómyrkur í máli í ræðu sem hann flutti við skólaslit 17. júní sl. Hann fjallaði m.a. um kennaraverkfallið og gagnrýndi fyrrverandi stjórnvöld harðlega og leist ekki betur á núsitjandi ríkisstjórn. Hann sagði m.a. um kennaraverkfallið:

„Ég hef áður látið koma fram þá einlægu skoðun mína að skuldinni eigi að skella á leiðtoga þjóðarinnar, rískisstjórnina sem sýndi það í verki hvers hún mat starf kennara. Hún ætti og að hafa það breitt bak að hún geti borið slíka ábyrgð, en um það efast ég reyndar.

Og öllu meiri áhyggjum veldur það mér að þó ný ríkisstjórn sé tekin við völdum þá virðist ekkert hafa breyst í raunverulegri afstöðu hennar til kjaramála kennara. Því enn á að binda ákveðna lausa enda frá síðustu samningum og ríkisstjórnin er við sama heygarðshornið og allir frestir löngu útrunnir. Það er skelfilegt til þess að vita að slíkt ástand geti komið upp hvenær sem er á 1 til 2ja ára fresti og til þess má ég bara ekki hugsa.

Ég tel að við slíkar aðstæður verði kennarar að gefa frá sér verkfallsvopnið, enda er komið á daginn að það er ekkert vopn í höndum þeirra, það bítur ekki á viðsemjandanum, enda engin sjáanleg peningaleg verðmæti í hættu eins og gerist t.d hjá sjómönnum og starfsfólki flugfélaga.

Kennarar geta aldrei náð ímynd Hróa Hattar með því að beita verkfallsvopninu, miklu fremur verður það ímynd hryðjuverkasamtaka sem einskis svífast og láta sig litlu skipta þó saklausir bíði mest tjón af aðgerðum. Úrskurður gerðardóms getur enda aldrei verið óhagstæðari kennurum en núverandi ástand. Ég vona svo sannarlega að mer verði ágengt að afla þessum hugmyndum fylgis í röðum kennara.“ Sagði Guðmundur Birkir Þorkelsson.

-Víkurblaðið, 22. júní 1995

Nýjast