Íbúum Akureyrar boðið á vígsluhátíð í Naustaskóla

Íbúum Akureyrar er boðið á vígsluhátíð í Naustaskóla, nýjasta grunnskóla bæjarins, milli kl. 14.00 og 17.00 á morgun, laugardaginn 28. nóvember. Nemendur 7. bekkjar opna sitt eigið kaffihús, leikþáttur verður sýndur kl. 15.00 og skólastjóri Naustaskóla kynnir starfið kl. 14.30 og aftur kl. 16.00.  

Naustaskóli hóf starfsemi þann 24. ágúst sl., þá voru 153 nemendur skráðir í skólann og starfsmenn voru 24 talsins. Skólastjóri er Ágúst Jakobsson. Það voru Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri á Akureyri og um 70-80 börn á leikskólanum Naustatjörn sem tóku fyrstu skóflustungurnar að fyrri áfanga skólans, þann 27. maí á síðasta ári. Við sama tækifæri var skrifað undir verksamning við SS Byggi, sem átti lægsta tilboð í byggingu og fullnaðarfrágang lóðar og húss. Fyrirtækið bauð 567,2 milljónir króna í verkið, eða rúm 104% af kostnaðaráætlun. Alls buðu sex fyrirtæki í verkið og voru þau öll tilboðin yfir kostnaðaráætlun, sem hljóðaði upp á um 544,5 milljónir króna. Bygging fyrri áfanga er um 2.300 fermetrar að stærð. Alls verður skólabyggingin 6.200 fermetrar, lóð um 21.000 fermetrar og íþróttasalur verður 33x18 metrar. Heildarkostnaður við framkvæmdina er áætlaður um tveir milljarðar króna

Nýjast