Hvetur alla til að tjá hug sinn um sameiningu

Ákveðið hefur verið að kjósa um sameiningu Akureyrar og Grímseyjar samhliða Alþingiskosningum sem verða í lok apríl. Hjalti Jón Sveinsson bæjarfulltrúi á Akureyri hafði gert ýmsa fyrirvara um sameiningu þessara tveggja sveitarfélaga en hann hvetur alla til að tjá hug sinn í væntanlegum kosningum.  

"Ég hafði gert ýmsa fyrirvara á sameiningu þessara tveggja sveitarfélaga vegna fjarlægðarinnar, en þegar allt kemur til alls þá eru Grímseyingar að kaupa af okkur margvíslega þjónustu, m.a. vegna skólagöngu eldri barna í eynni, heilsugæslu og kristnihald.  Það er því í raun fátt eftir," segir Hjalti Jón Sveinsson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Akureyrar. 

"Ég er því samþykkur að íbúar sveitarfélaganna fái að kjósa um málið og hvet raunar alla til að tjá hug sinn, hvort sem menn eru með eða á móti," segir Hjalti Jón. Hann kveðst hafa verið andvígur því að láta sameiningu ganga í gegn án kosninga svo sem eitt sinn var inni í myndinni.

Nýjast