Hvalasafnið á Húsavík tekur í dag á móti 13 mastersnemum í safnafræði við Háskóla Íslands. Nemendurnir eru í vettvangsheimsókn í tengslum við eitt námskeiða sinna: Safn og samfélag: sirkus dauðans?
„Svona verkefni er mjög dýrmætt fyrir safnið en ekki síður fyrir nemendur og kennara, þar sem það er mjög hagnýtt að fá að fást við raunveruleg verkefni inni í söfnum,“ segir Huld Hafliðadóttir, verkefnastjóri Hvalasafnsins í samtali við Vikudag.
Í verkefninu eru samfélagsleg tengsl höfð að leiðarljósi og munu verkefnin veita nemendum innsýn og þjálfun í hagnýtingu fræðilegs efnis við raunveruleg verkefni og áskoranir í safnastarfi. Verkefnið er mótað af kennurum námskeiðsins og starfsfólki Hvalasafnsins. Nemendur dvelja á Húsavík í þrjá daga og vinna verkefnið undir handleiðslu kennara.
„Verkefnið gerir nemendum kleift að kynnast viðfangsefninu á annan hátt en í gegnum glærur og fyrirlestra, en auk þess er þetta dýrmætt fyrir það samfélag sem tekur á móti nemendunum og er ákveðin kynning á samfélagi og samfélagsháttum,“ segir Huld.