Nú í haust var í fyrsta skipti boðið upp á diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun í Háskólanum á Akureyri og er þetta jafnframt í fyrsta sinn sem slíkt nám er í boði utan höfuðborgarsvæðisins. Í dag stunda fjórir stúdentar námið og við ákváðum að taka púlsinn á hvernig gengur.
Tækifæri fyrir öll til að halda áfram að læra
Námið er afrakstur samstarfsverkefnis Háskólans á Akureyri, Háskólans Íslands og Listaháskóla Íslands um inngildandi háskólanám. Dr. Sara Stefánsdóttir, lektor við Iðjuþjálfunarfræðideild, leiddi verkefnið fyrir hönd HA en markmið þess er að efla menntun, sjálfstæði og atvinnuþátttöku fólks með þroskahömlun og stuðla að samfélagi þar sem öll fá tækifæri til að halda áfram að læra og taka þátt.
„Rannsóknir sýna okkur að fötluðu fólki hefur ekki fjölgað í háskólum í sama mæli og öðrum hópum. Þörfin fyrir þetta nám hefur verið aðkallandi á landsbyggðinni og skortur á inngildandi námsleiðum takmarkar möguleika þeirra á vinnumarkaði.“ Segir Sara og bætir við að staðan sé enn verri sé horft til þess hóps sem er með þroskahömlun.
„Við í HA viljum skapa námsumhverfi þar sem fjölbreyttir nemendahópar eru velkomnir. Þetta er mikilvægt skref í átt að jafnrétti og raunverulegu aðgengi að menntun.“

Dr. Sara Stefánsdóttir, lektor við Iðjuþjálfunarfræðideild
Hvernig er svo í náminu?
Þær Karen Alda Mikaelsdóttir og Rósa Ösp Traustadóttir eru stúdentar á nýju námslínunni og segjast vona að námið hjálpi þeim að komast nær framtíðarmarkmiðum sínum.
„Ég er að reyna að komast nær því sem mig langar að gera í framtíðinni en það er að vinna með fötluðu fólki sem er með alkóhólisma því mér finnst vanta úrræði og mig langar að koma einhverju af stað ef ég get, til dæmis einhverjum svona jafningjastuðningi,“ segir Karen.
Rósa tekur í svipaðan streng og segir: „Ég sótti um að komast í háskólann af því að mig langar að vinna með börnum sem eru með svipaðar fatlanir og ég og hafa svipaða reynslu og ég. Svo er ég búin að læra mikið á tölvu, á Canvas og alveg helling á gervigreindina og það hefur hjálpað mér alveg rosalega mikið, bara mjög gaman að forvitnast um hitt og þetta. Um daginn var ég til dæmis að lesa frétt sem ég skildi ekki nógu vel og setti það inn í Chatgpt og bað um auðlesið og þá skildi ég fréttina.“
Náminu lýkur á tveimur árum og hægt er að velja milli tveggja áherslusviða, annars vegar velsæld barna og hins vegar velsæld fullorðinna. Námið byggir á blöndu af staðnámi, fjarnámi og starfsnámi eins og ýmist annað nám við skólann. Háskólinn er nú þegar vel í stakk búinn til að komast til móts við mismunandi námsaðferðir með góðu fjarnámi og tæknilausnum og markmiðið er að hægt verði að laga námið að hverju og einu. Það nýtist vel í þessu námi þar sem stúdentar geta farið yfir fyrirlestra á eigin hraða og fengið persónulegan stuðning.
Einnig koma að náminu iðjuþjálfunarfræði- og kennarastúdentar sem taka þátt í námskeiðum sem byggja á samstarfi og stuðningi við stúdenta.
Katrín Elva Jóhannesdóttir, stúdent á 3. ári í iðjuþjálfunarfræði, tekur valnámskeið sem felst í að vera námsfélagi stúdenta í diplómanáminu. Henni finnst verkefnið heillandi og það styður vel við nám hennar í iðjuþjálfunarfræði. Hún hafi til dæmis með þessu samstarfi sínu við stúdenta í diplómanáminu fengið tækifæri til að efla samskiptahæfni, fagþroska og sjálfsþekkingu. Hún telur einnig að með þessari námslínu sé verið að skapa fjölbreyttara samfélag innan HA.
Hvað svo?
Háskólinn á Akureyri hefur gert breytingar á aðstöðu undanfarin ár til að koma til móts við fatlaða stúdenta þó að ljóst sé að megi gera betur hvað það varðar.
Haldið verður áfram að vinna að þessum málum innan háskólans í samræmi við samþykkta jafnréttisáætlun og aðgerðaáætlun henni tengda. Það er gert með því að sjá til þess að eftirfylgni með aðgerðum sé tryggð og er starfskraftur í því verkefni hjá háskólanum í dag.
