Með nýjum fjölmiðlalögum var komið á fót umdeildri fjölmiðlanefnd. Á félagsvísindatorgi í Háskólanum á Akureyri á morgun miðvikudag, fjallar Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri nefndarinnar um störf og hlutverk stofnunarinnar. Erindið verður flutt í stofu M102 kl. 12.00. Elfa Ýr er fjölmiðla- og fjarskiptafræðingur að mennt. Hún lauk B.A.-námi í bókmenntum frá Háskóla Íslands árið 1994, prófi í hagnýtri fjölmiðlun við sama skóla árið 1996 og hefur lokið tveimur meistaragráðum í fjölmiðlun og boðskiptum, þ.e. í fjölmiðlunar-, margmiðlunar- og fjarskiptafræðum frá Georgetown University í Bandaríkjunum árið 2000 og í fjölmiðla- og ímyndarfræðum frá University of Kent í Bretlandi árið 1995.
Frá 2006 til 2011 starfaði Elfa Ýr sem deildarstjóri fjölmiðladeildar í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, en starfaði áður m.a. við dagskrárgerð, blaða- og fréttamennsku. Hún hefur leitt stefnumótunarvinnu ráðuneytisins á sviði fjölmiðlamála undanfarin ár og stýrt fjölda verkefna. Þá var hún m.a. starfsmaður útvarpsréttarnefndar um tveggja ára skeið og stundakennari í fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands um 12 ára skeið.