Á annan tug manna frá Sérstökum saksóknara og Gjaldeyriseftirliti Seðlabankans leitar nú í húsnæði Samherja í Reykjavík og annar eins fjöldi leitar í höfuðstöðvunum á Akureyri. Ástæðan er grunur um meint brot Samherja á lögum um gjaldeyrismál. Tilefni rannsóknarinnar er fyrirspurn fréttaþáttarins Kastljóss um viðskipti Samherja en ítarlega verður fjallað um málið í þættinum í kvöld, segir á vef RÚV. Farið var inn í höfuðstöðvarnar á Akureyri og í Reykjavík samtímis, rétt fyrir klukkan hálf tíu í morgun. Búið er að loka skrifstofu Samherja í Reykjavík en menn frá Sérstökum saksóknara og Seðlabankanum eru þar enn að störfum. Stefán Jóhann Stefánsson, upplýsingafulltrúi Seðlabankans, segir á vef RÚV, að tollstjóraembættið taki einnig þátt í rannsókninni. Hann segir að rannsóknin snúist um meint brot Samherja á gjaldeyrislögum. Ábending hafi borist frá starfsmönnum Kastljóss. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um rannsóknina.