Kvennakór Húsavíkur mun á næstunni halda þrenna vortónleika á Norðurlandi í tengslum við verkefnið Hugurinn leitar heim sem hlaut styrk úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra.
Stjórnandi kórsins er engin önnur en Hólmfríður Benediktsdóttir sem hefur verið áberandi í tónlistarlífi Húsvíkinga undanfarna áratugi. „Ég hætti að vinna þegar ég varð 65 ára árið 2015 en svo stofnaði Ásta [Magnúsdóttir], dóttir mín kvennakór og hún sagði; „mamma mín þú átt að stjórna,““ segir hún hlæjandi og bætir við: „Við náttúrlega hlýðum fullorðnum börnum okkar.“
Hólmfríður segir að upphaflega hafi kórinn aðeins átt að vera létt áhugamál en konurnar í kórnum séu svo metnaðarfullar að þetta sé heldur betur alvöru kór þar sem æft er stíft í hverri viku. „Núna erum við 12 sem að syngjum, konur á aldrinum 30-35 ára,“ segir hún.
Kórastarfið segir Hólmfríður alltaf hafa verið henni mikilvægt.“Þetta er alltaf ofsalega gefandi og krefjandi en kannski peningalega lítils metið. Það má segja að þetta sé kvenfélagið mitt. Ég hef aldrei gengið í hefðbundið kvenfélag en hef verið með kórana í staðinn. Þeir eru alltaf til taks við hina ýmsu viðburði eins og jólatrésskemmtanir og slíkt. Það hafa stundum verið allt að 15 gigg á ári,“ segir hún stolt. Uppistaðan í kórnum segir hún vera konur sem hafa áður verið í stúlknakórum hjá henni og í söngnámi.
Verkefnið Hugurinn leitar heim felst í því að fengin voru þrjú Þingeysk tónskáld til að semja lög til að frumflytja á tónleikunum. Auk þess munu ljóð skáldkonunnar Huldu (Unnar Benediktsdóttur Bjarklind (f. 6. ágúst 1881 - d. 10. apríl 1946)) vera gert hátt undir höfði á tónleikunum. Hulda bjó árum saman á Húsavík og er í miklu uppáhaldi hjá Hólmfríði. „Mig langar svo rosalega til að við Húsvíkingar gerum henni hátt undir höfði. Frá byrjun hef ég haft dálæti af ljóðunum hennar. Á fyrsta kóramótinu okkar lét ég t.d. syngja Vatnið sem er við ljóð eftir Huldu. Þannig að hún hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér.“
Tónskáldin sem fengin voru til að semja lög í tengslum við verkefnið eru Steingrímur Þórhallsson með lagið Þín sál er eins og svanur. „Þetta er alveg óskaplega fallegt ljóð og svo vel samið hjá honum Steina. Þetta er aðeins of erfitt fyrir 12 konur að syngja en við látum okkur hafa það og erum mikið búnar að vera glíma við þetta,“ segir Hólmfríður.
Þá var Guðrún Ingimundardóttir, aðstoðarskólastjóri Tónlistarskólans á Akureyri fengin til að semja verk. Hún samdi lag sem heitir Húsavík. Það fjörugt lag og glettnislegt. Svo erum við líka að syngja lög á tónleikunum úr þjóðlagakveri sem Guðrún gaf út. Þetta eru Þingeysk þjóðlög sem safnað var í Þingeyjarsýslu,“ útskýrir Hólmfríður.
Þriðja tónskáldið er Hólmfríður sjálf. „Ég samdi árið 2011 lag sem heitir Dúfan mín við ljóð eftir Ingibjörgu Haraldsdóttur til minningar um hana Krissu, dóttur mína sem dó alltof of ung en hún var náttúrlega alltaf að syngja með mömmu sinni eins og Ásta,“ segir hún.
Á efnisskrá tónleikanna eru jafnframt einsöngslög við ljóð eftir Huldu og einnig lög eftir Friðrik Jónsson og Steingrím Birgisson. Þá mun Aðalheiður Þorsteinsdóttir spila undir á tónleikunum. „Svo erum við að syngja Thank you for the music og fullt af popplögum en eftir hlé erum við í þessu verkefni: Þingeysk tónskáld,“ segir Hólmfríður og bætir við: „Ég er ofsalega ánægð með þetta og viðurkenni það alveg að hún Ásta lemur mig áfram í þessu.“
Sem fyrr segir er um þrenna tónleika að ræða. Laugardaginn 20 maí í sal Borgarhólsskóla á Húsavík klukkan 17. Á sunnudaginn 21. maí eru tvennir tónleikar. Annars vegar klukkan 16 í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík og hins vegar í Þorgeirskirkju, Ljósavatnshreppi klukkan 20:30.