HSN fær 250 fermetra viðbótarhúsnæði í Sunnuhlíð

Framkvæmdir eru þegar hafnar við breytingar á suðurhluta húsnæðis við Sunnuhlíð sem HSN fær til afno…
Framkvæmdir eru þegar hafnar við breytingar á suðurhluta húsnæðis við Sunnuhlíð sem HSN fær til afnota í vor. Mynd skjáskot af ja.is

„Þetta verður kærkomin viðbót og bætir okkar aðstöðu,“ segir Jón Helgi Björnsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, HSN, sem samið hefur um stækkun stöðvarinnar, en viðbótarrými verður tekin í notkun í apríl í vor.

Um er að ræða 250 fermetra húsnæði í suðurhluta Sunnuhlíðar þar sem HSN er til húsa. Jón Helgi segir að framkvæmdir við breytingar á húsnæðinu, sem áður hýsti starfsemi KFUM og K séu þegar hafnar. „Við vonum að þær gangi vel og samkvæmt áætlun og að allt verði klárt fyrir vorið,“ segir hann. Þar verða 6 rými fyrir heilbrigðisstarfsmenn, eitt teymisrými auk þess sem þar verður einnig skjalageymsla.

Jón Helgi Björnsson

Styrkja núverandi þjónustu

Á nýliðnu ári var byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar á Akureyri frestað um að minnsta kosti 5 ár eftir endurmat á forsendum, samtöl við hagsmunaaðila og jákvæðar niðurstöður þjónustukönnunar. Núverandi umgjörð, með nýrri stöð í Sunnuhlíð og starfsemi á Hvannavöllum, hefur gefið mjög góða raun, og í stað þess að kljúfa klíníska þjónustu verður lagt upp með að styrkja núverandi þjónustu.

Jón Helgi segir mönnun stærstu áskorun í rekstri heilsugæslunnar og eitt þeirra atriða sem þarf spilar inn í er að unnt sé að bjóða starfsfólki og öðrum upp á gott húsnæði. „Til að halda góðu starfsfólki þarf gott húsnæði og með því að auka við okkur í Sunnuhlíðinni eru við að mæta þeim kröfum.“

Nýjast