Ferðaþjónusta bænda kynnir til sögunnar bæ mánaðarins. Einn fyrirmyndar ferðaþjónustubær er valinn og kynntur í hverjum mánuði. Fyrsti bær mánaðarins, bær maí mánaðar er Hótel Rauðaskriða í Aðaldal. Bær mánaðarins gengur þannig fyrir sig að í byrjun hvers mánaðar er valinn einn ferðaþjónustubær innan vébanda Ferðaþjónustu bænda sem hefur staðið sig sérstaklega vel á sviði gæða - og umhverfismála, vöruþróunar og í þjónustu við viðskiptavini. Þá er einkum horft til sérstöðu staðarins og nýbreytni á sviði þjónustu og afþreyingar. Val á bæ mánaðarins byggist á umsögnum gesta og mati starfsfólks skrifstofu Ferðaþjónustu bænda. Markmið verkefnisins er að vekja athygli á því góða starfi sem fram fer hjá ferðaþjónustubændum um allt land. Víða er mikill metnaður lagður í að byggja upp ferðaþjónustu með áherslu á upplifun í mat og afþreyingu auk fjölbreyttrar gistingar í sveitum landsins.
Hótel Rauðaskriða
Fyrsti bær mánaðarins, í maí er Hótel Rauðaskriða í Aðaldal. Hótel Rauðaskriða er Svansvottað sveitahótel staðsett í fögru og friðsælu umhverfi, 28 km. frá Húsavík. Samkvæmt upplýsingum frá viðskiptavinum og mati starfsfólks Ferðaþjónustu bænda veitir hótelið fyrirtaks þjónustu. Í gegnum árin hafa gestgjafar sýnt mikinn metnað í að halda gististaðnum og umhverfi hans hreinu og snyrtilegu auk þess sem allur aðbúnaður er til fyrirmyndar.
Hótel Rauðaskriða er Svansvottað en Svanurinn er hið opinbera norræna umhverfismerki. Ströngum umhverfisstöðlum er fylgt á hótelinu sem undirstrikar metnað gestgjafa á sviði gæða - og umhverfismála. Á Hótel Rauðaskriðu og í nágrenni þess er í boði fjölbreytt afþreying. Mikil vinna hefur verið lögð í að kortleggja göngu og hjólaleiðir í nágrenninu og geta gestir fengið hjól að láni hjá hótelinu. Fuglalíf á svæðinu er fjölbreytt og nýlega hafa rekstraraðilar Hótel Rauðaskriðu útbúið fuglaskoðunarferð ætlaða erlendum ferðamönnum, í samstarfi við aðra ferðaþjónustuaðila á Norðausturlandi. Nokkrar af helstu náttúruperlum landsins eru einnig nálægt s.s. Goðafoss, Mývatn, Ásbyrgi og Dettifoss og stutt er í aðra afþreyingarmöguleika eins og hestaferðir, hvalaskoðun og sjóstöng.
Um Ferðaþjónustu bænda
Ferðaþjónusta bænda hf. er ferðaskrifstofa í eigu bænda sem býður uppá fjölbreytta gistingu hjá 180 ferðaþjónustuaðilum um allt land á sveitahótelum, í gistihúsum, sumarhúsum, heimagistingu, svefnpokaplássum og á tjaldsvæðum. Boðið er uppá mikið úrval afþreyingar og áhersla er lögð á mat heima úr héraði, með sjálfbærni og persónulega þjónustu að leiðarljósi, segir í fréttatilkynningu.