Hólaskólanemar leggja göngustíga í Friðlandi Svarfdæla

Námskeið í lagningu göngustíga var haldið í Náttúrusetrinu á Húsabakka í Svarfaðardal í vikunni.  Yfir tugttugu nemendur víðs vegar af landinu vinna ásamt þremur leiðbeinendum, hörðum höndum frá mánudegi fram á miðvikudag að því að leggja göngustíga í Friðlandi Svarfdæla, smíða býr yfir læki, slétta úr þúfum, ræsa fram votlendi og annað sem gera þarf svo vegfarendur komist nokkurn veginn þurrum fótum um svæðið.  

Námskeiðið er samstarfsverkefni Náttúrusetursins á Húsabakka og Hólaskóla og stunda nemendurnir flestir nám við skólann. Einnig  voru nokkrir heimamenn á námskeiðinu á vegum vinnuskólans og tæknideildar Dalvíkurbyggðar. Leiðbeinendur eru Kjartan Bollason kennari við Hólaskóla og Chas Goemans sem stjórnar sjálfboðaliðastarfi á vegum Umhverfisstofnunar.

Veðrið leikur við þáttakendur en satt að segja var útlitið ekki gott með snjó og bleytu þegar fyrstu gestirnir tíndust að á sunnudaginn. Nú um helgina stendur til að setja upp fuglaskoðunarhús við suðurenda Tjarnartjarnar. Húsið er hið fyrra af tveim fuglaskoðunarhúsum sem Náttúrusetrið er að koma upp en hitt verður staðsett við norausturhorn Hrísatjarnar og er ætlunin að laggja göngustíg að því frá  Olís á Dalvík.

Nemendur Dalvíkurskóla verða einnig virkjaðir í þágu friðlandsins. Síðasta kennsluvika skólans veður helguð góðverkum af ýmsum toga og m.a. vinnu við gönguleiðir  í friðlandinu og víðar í sveitarfélaginu. Þá stendur til að Grunnskóli Dalvíkurbyggðar taki friðlandið „í fóstur" en það þýðir m.a. að nemendur og starfsfólk skólans sjái um ýmis sjálfboðaliðastörf  í sambandi við viðhald á mannvirkjum, skiltum  og gönguleiðum í Friðlandi Svarfdæla.

Nýjast