Höfundur skýrslunnar varð stjórnarformaður Vaðlaheiðarganga

Á föstudag var kynnt ný skýrsla um Vaðlaheiðargöng sem stjórnvöld létu gera samhliða 4,7 milljarða króna aukalánveitingu til verkefnisins í apríl. Þetta kemur fram í frétt á vef RÚV.

Skýrslan átti meðal annars að varpa ljósi á hvað mætti læra af framkvæmdinni sem hefur farið umtalsvert fram úr kostnaðaráætlun. Friðrik Friðriksson rekstrarráðgjafi var fenginn til að gera skýsluna. Skömmu eftir að Friðrik hóf störf gerði fjármálaráðherra tillögu um að hann tæki sæti í stjórn Vaðlaheiðarganga hf. og var hann kjörinn stjórnarformaður í byrjun sumars.

Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra segir í samtali við RÚV að hann telji skynsamlegt að fá utanaðkomandi mann þegar ljóst sé að aukakkosnaður sé eins mikill og raun beri vitni. Hann segir jafnframt að það sé eðlilegt að stjórnarformaður sé fulltrúi ríkisins, því ríkið beri megináhættu af verkefninu. Þá telur Benedikt að skipunin rýri ekki trúverðugleika skýrslunnar.

Fyrrum stjórnarformaður Ágúst Torfi Hauksson er nú meðstjórnandi, en hann er fulltrúi Greiðrar leiðar, meirihlutaeiganda í göngunum, sem er í eigu sveitarfélaga og fyrirtækja á Norðurlandi.

Nýjast