Bergvin Jóhannsson, leikmaður 2. flokks Þórs í knattspyrnu, sem slasaðist í knattspyrnuleik gegn KA í Boganum í gær, gekkst hann undir aðgerð á fæti á Sjúkrahúsinu á Akureyri í dag. Eins og fram kom hér á vef Vikudags fyrr í dag, lenti Bergvin á stálbita í grind hússins, fyrir aftan annað markið og fékk við það mikið högg á fótinn. Hnéskelin fór í tvennt, auk þess sem það flísaðist biti úr henni en hann fékk ekki högg á höfuðið eins og sagt var í fyrri fréttinni. Í aðgerðinni þurfti að skrúfa hnéskelina saman með tveimur skrúfum og loka sárinu með átta sporum. Um algjört slys var að ræða. Bergvin bar sig vel þegar Vikudagur heyrði í honum í kvöld. Hann segir að aðgerðin hafi heppnast vel en hann mun dvelja á sjúkrahúsinu til morguns. Bergvin var að teygja sig eftir boltanum og reyna fyrirgjöf fyrir markið þegar hann fór út af vellinum á mikilli ferð og skall á stálbitanum með fyrrgreindum afleiðingum. Bergvin sagði að það hafi ekki hjálpað til að hafa verið á takkaskóm þegar hann skautaði yfir malbikskaflann sem tekur við þegar út af gervigrasinu er komið. Stoppa þurfti leikinn í 20 mínútur vegna slyssins en Bergvin var fluttur með sjúkrabifreið á Sjúkrahúsið á Akureyri. Hann segist mega fara að hreyfa sig eftir um 6 vikur, en ef ekki komi til kraftaverk, muni það taka sig um eitt ár að ná fullum bata. Það er því ljóst að Bergvin mun ekki leika knattspyrnu á komandi leiktíð en hann hafði einnig fengið tækifæri með meistaraflokki Þórs á undirbúningstímabilinu. Einnig var hann í æfingahópi U-17 ára landsliðsins, sem undirbýr sig fyrir leik í milliriðli EM í Skotlandi í næsta mánuði. Endanlegi landsliðshópurinn hefur ekki verið valinn, en hafi Bergvin átti þar möguleika, þá eru þeir úr sögunni að sinni. Bergvin á að baki leiki með U-17 ára landsliðinu en hann lék með Íslandi2 á Norðurlandamótinu sem haldið var á Akureyri sl. sumar. Þá fór hann með liðinu til Ísrael í október sl. en var varamaður í þeim leik.
Bergvin segir að nú sé ekki annað að gera en hvíla sig, reyna að ná fullum bata og koma enn sterkari til leiks á ný, þótt það verði ekki fyrr en á næsta ári. Hann huggar sig við að 2-0 sigur vannst gegn KA í leiknum í gær og sjálfur skoraði Bergvin seinna markið.