Hljómsveitin Mánar frá Selfossi kemur fram tónleikum á Græna hattinum á Akureyri helgina 25. og 26. september nk. Hljómsveitin kom síðast fram á Akureyri fyrir tæpum 40 árum, í Dynheimum, sem þá kallaðist Lón en nú Rýmið. Haukur Tryggvason veitingamaður á Græna hattinum sá um ásamt félögum sínum að ráða Mána á dansleik í Lóni.
Mánar dustuðu af sér rykið síðast árið 2004 þegar þeir voru fengnir til að hita upp fyrir rokksveitina Deep Purple í Laugardalshöllinni og þar komu þeir síðast fram (fyrir utan nokkrar minni uppákomur). Prógrammið sem Mánarnir flytja á Græna hattinum samanstendur af gömlum rokkperlum frá áttunda áratugnum auk frumsamdra laga af plötum þeirra.
Meðlimir hljómsveitarinnar eru þeir sömu og fyrir 40 árum, en þeir eru: Ólafur Þórarinsson, Björn Þórarinsson, Guðmundur Benediktsson, Smári Kristjánsson og Ragnar Sigurjónsson. Auk þeirra koma fram tveir hálf-Mánar, þau Unnur Birna Björnsdóttir, fiðluleikari og söngkona (dóttir Bassa orgelleikara) og Björn (Bassi) Ólafsson, slagverksleikari (sonur Labba, söngvara og gítarleikara). Tónleikarnir hefjast kl. 22.00 bæði kvöldin, en húsið opnar kl 21.00.