Hliðin á húsi mjólkurbíls rifnaði af í árekstri við jarðýtutönn

Öryggisbeltið er fest við bílstjórasætið en ekki húsið á bílnum.
Öryggisbeltið er fest við bílstjórasætið en ekki húsið á bílnum.

Litlu mátti muna að illa færi þegar mjólkurbíll frá MS Akureyri rakst á jarðýtutönn sem stóð útaf vagni flutningabíls, þegar bílarnir mættust norðan við Húsavík sl. föstudagsmorgun. Hliðin bílstjóramegin á mjólkurbílnum rifnaði af við áreksturinn við jarðýtutönnina og er óhætt að segja að bílstjóri mjólkurbílsins, Birgir Óli Sveinsson, hafi sloppið hreint ótrúlega vel. Jarðýtutönnin rétt sleikti bílastjórastætið, þannig að ekki mátti miklu muna.

 

“Ég held að tönninn hefði ekki getað farið nær mér og það er eins gott að maður var beinn með lappir og hendur á stýri. Ég gerði mér ekki alveg grein fyrir því fyrst hversu alvarlegt þetta var og var aðallega svekktur yfir því að skemma bílinn. Svo þegar ég sá hver kyns var, tel ég mig heppinn að ekki fór verr.” Birgir segir að það hafi orðið sér til lífs að öryggisbelti bílsins var fest í bílstjórasætið að ofan en ekki í sjálft húsið, sem rifnaði af bílnum við höggið. “Beltið hefði klippt mig í sundur.” Einnig urðu skemmdir á tanki mjólkurbílsins þegar bílarnir mættust og m.a. kom gat á tankinn.

Höggið var svo mikið að tönnin á jarðýtunni brotnaði og fór eina 30 metra afturfyrir bíl. Birgir sagði að hurðin hjá sér hefði legið eins og krumpuð bréfkúla fyrir utan veg og það sem eftir var af hliðinni hékk utan á mjólkurtanknum. Hann segir að hvorugur bíllinn hafi verið á mikilli ferð þegar þeir mættust en höggið hafi engu að síður verið mikið. Það er tvöfalt byrði á tanknum en það kom gat á hann en þar sem Birgir var aðeins um 800 lítra í bílnum, þá lak mjólkin ekki út. Birgir var að fara að sækja mjólk á bæi á Tjörnesi og var töluvert myrkur á þessum tíma dags. Þegar hann kom upp á hæðina norðan við Húsavík, sá hann blikkandi ljós á toppi flutningabíls með tengivagn. “Ég sá ekki hvað var aftan á vagninum en þegar maður sér svona ljós þá hægir maður á sér, víkur vel til hliðar og keyrir framhjá. En þegar ég kem á hlið við bílinn, sé ég hvar jarðýtutönn stendur einhverja 40-50 cm út fyrir pallinn. Þessi vagn er þrír metrar á breidd og þarf undanþágu, því þeir mega ekki vera nema 2,5 metrar. Vegurinn þarna er 6 metrar breiður, hann var með þrjá og hálfan metra og ég með tvö og hálfan metra og báðir vorum við 15 cm frá brún. Þannig að tönnin fór 30 cm inn í bíl hjá mér. Það vantaði aðvörunarljós á tönnina sem stóð svona út fyrir vagninn, þarna var mikið myrkur en ef það hefðu verið aðvörunarljós á tönninni þá hefði ég bara stoppað,” sagði Birgir.

Birgir var marinn á báðum fótum fyrir neðan hné en hann var ekki alveg viss um hvernig það gerðist. “Ég fór í skoðun á sjúkrahús og þá kom í ljós að ég var einnig rispaður á vinstra fæti. Það er í raun alveg ótrúlegt að þetta skyldi ekki vera meira og ég áttaði mig ekki á því hversu heppinn ég var, fyrr en menn fóru að óska mér til hamingju með vera á lífi. Og það er alveg hárrétt. Hefði tönnin farið 10 cm lengra inn í húsið, hefði hún tekið sætið og jafnvel náð í mig líka.”

Birgir tók sér frá akstri sl. laugardag en var kominn af stað á ný í morgun. “Það þýðir ekkert að vera heima og velta sér upp úr hlutunum. Mér var boðin áfallahlaup en ég ákvað að láta það eiga sig í bili að minnsta kosti. En auðvitað vaknaði ég upp á laugardagsmorgun við að hugsa um þetta og gerði það allan daginn.”

 

 

 

 

Nýjast