Starfsemin fer fram á Bjargi við Bugðsíðu og er stöðin starfrækt yfir vetrarmánuðina, frá fyrri hluta september og til seinni hluta maí. Þjálfunin fer fram síðdegis alla virka daga á þessu tímabili. Eydís Valgarðsdóttir er yfirsjúkraþjálfari HL-stöðvarinnar og hún segir að alls stundi rúmlega 100 manns æfingar í stöðinni í fimm hópum. "Hóparnir eru miserfiðir, þannig að við stýrum fólki inn í hópa sem henta hverjum og einum. Þarna er um að ræða framhaldsþjálfun eða viðhaldsþjálfun og fólk getur komið tvisvar til þrisvar sinnum í viku og þá eins lengi og það vill. Við erum einnig með grunnendurhæfingu, eftir hjartaáfall eða kransæðaþrengsli, fyrir fólk sem farið hefur í hjartaaðgerð eða kransæðavíkkun. Grunnendurhæfing getur hafist viku til 10 dögum eftir útskrift af sjúkrahúsi. Að sjálfsögðu er farið mjög rólega af stað og þjálfað undir ströngu eftirliti. Grunnendurhæfingunni skiptum við í tvö stig sem hvort um sig tekur 4-6 vikur. Seinna stigið hefst þegar við treystum fólki til að fara í þolpróf. Þá hefst öflugri og markvissari endurhæfing, enda höfum við þá niðurstöðu þolprófsins í höndunum. Hjartateymi á Sjúkrahúsinu á Akureyri sér um að halda fræðslufyrirlestra fyrir nýgreinda hjartasjúklinga og maka þeirra enda þurfa margir að endurskoða lífsstíl sinn bæði varðandi mataræði, hreyfingu og fleira í kjölfar þess að greinast með langvinnan sjúkdóm. "
Frábært að þessi vettvangur skuli vera til
Eydís segir að þegar grunnendurhæfingu lýkur standi fólki til boða að halda æfingunum áfram í einum af stóru hópunum. "Sumir staldra stutt við hjá okkur en svo eru aðrir sem koma ár eftir ár. Þeir sem að koma í grunnendurhæfinguna eru frá 40 ára aldri og uppúr en 40 ára aldur er mjög ungt. Það er alltaf einn og einn sem fær hjartaáfall eða kransæðastíflu á þeim aldri en meðal aldur þeirra sem koma í stöðina er mun hærri. Yngra fólk þekkir líkamsræktarstöðvarnar og þótt það komi við hjá okkur, kærir það sig ekki endilega um að vera áfram hjá okkur og fer þá aftur á líkamsræktarstöðvarnar eða hreyfir sig á eigin vegum. Ég vona það að minnsta kosti. Það er engu að síður frábært að þessi vettvangur, HL-stöðin, skuli vera til. Þegar fólk greinist með hjartasjúkdóm, þá fylgir því heilmikill pakki. Allt í einu er fólk komið með sjúkdóm og hvað má þá og hvað ekki? Fólki er sagt að hreyfa sig og hvernig á það að fara að því. HL-stöðin er þá staður, þar sem fólk á að mæta á ákveðnum tíma og þar starfar fagfólk sem hefur kunnáttu og þekkingu til þess að leiðbeina. Það er líka öryggi sem fylgir því að hafa alltaf lækni á staðnum."
Þjálfunin snýst fyrst og fremst um að styrkja hjarta- og æðakerfið. Eydís segir að ekki séu notaðar miklar þyngdir í æfingunum heldur sé áherslan á léttari æfingar og þá fleiri endurtekningar. "Áherslan er á þolþjálfun en auðvitað kemur styrktarþjálfunin inn líka. Tímarnir byrja á sameiginlegri upphitun, svo eru þrekhjólin notuð eða göngubretti og í framhaldinu stöðvaþjálfun með fjölbreyttum æfingum, sem taka á öllum líkamanum. Æfingarnar enda svo á vöðvateygjum og slökun annað slagið." Á jólafundi og vorfundi býður HL-stöðin upp á fræðslufyrirlestra. Ýmislegt áhugavert er þá tekið fyrir og boðið er upp á kaffi og meðlæti áður en haldið er í jóla- eða sumarfrí.
Fjórir læknar og tíu sjúkraþjálfarar
Eydís segir að þeir sem stundi æfingar á stöðinni sé að meirihluta til fólk sem komið sé af léttasta skeiði "en samt á besta aldri að sjálfsögðu". Þó að hreyfingin og þjálfunin skipti miklu máli þá komi fleira til. "Þessu fylgir líka heilmikill félagsskapur og það verður oft stór partur af þessu fyrir fólk að hittast á staðnum og spjalla."
Eydís segir að HL-stöðin taki völdin á Bjargi frá kl. 15.30, þegar sjúkraþjálfunin, sem þar fer fram á daginn, tekur enda. Fjórir læknar og tíu sjúkraþjálfarar starfa við stöðina og skiptast á að sinna fólki. Yfirlæknir er Ingvar Þóroddsson endurhæfingarlæknir. Þriggja manna stjórn sér um rekstur HL-stöðvarinnar. Þorsteinn Þorsteinsson er formaður, Gísli Jón Júlíusson er gjaldkeri og Þorsteinn Konráðsson ritari. Gísli Jón hefur verið gjaldkeri frá upphafi. Eydís segir að HL-stöðin sé rekin með ríkisstyrk og æfingagjöldum en að auki hafa henni borist peningagjafir frá ýmsum aðilum, sem nýttar hafa verið til kaupa á tólum og tækjum. Hún nefnir í því sambandi styrki frá Samherja og KEA en fleiri hafa sýnt HL-stöðinni velvilja gegnum tíðina með peningagjöfum.
Að baki stöðinni stendur fulltrúaráð sem er skipað fulltrúum frá eftirtöldum félögum:
Landssamtökum hjartasjúklinga, Hjarta- og æðaverndarfélagi Akureyrar og nágrennis,
Sambandi ísl. Berkla- og brjóstholssjúklinga SÍBS, Starfsmannafélagi Akureyrarbæjar (Kjölur), Sjúkrasjóði Félags versl.og
skrifstofufólks, Sjúkrasjóði Einingar, Trésmíðafélagi Akureyrar, Heilsugæslustöðinni á Akureyri og Sjúkrahúsinu
á Akureyri. Formaður fulltrúaráðsins er Þorsteinn E. Arnórsson. Í tilefni þessara tímamóta var haldið afmælishóf
á Hótel KEA sl. sunnudag.