Hjúkrunarheimili við Þursaholt verður með 100 rýmum í stað 80 möguleiki á að bæta síðar við 40 rýmum

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri og Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra tóku fy…
Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri og Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra tóku fyrstu skóflustungu að nýju hjúkrunarheimili við Þursaholt í maí síðastliðnum. Þá stóð til að rýmin yrðu 80 talsins, en nú eru áform um að stækka það og bjóða upp á 100 rými. Með möguleika á stækkun um 40 rými til viðbótar síðar.

Bæjarstjórn Akureyrar hefur samþykkt breytingu á deiliskipulagi Holtahverfis sem nær til lóða við Þursaholt og var það gert með 11 samhljóða atkvæðum.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi Holtahverfis er á lóð Þursaholts 2 gert ráð fyrir byggingu hjúkrunarheimilis fyrir allt að 80 rými. Á lóð 4-12 er gert ráð fyrir uppbyggingu íbúða fyrir 60 ára og eldri auk möguleikanum á byggingu þjónustumiðstöðvar, þ.e. uppbyggingu til samræmis við hugmyndir um svokallaðan lífsgæðakjarna.

100 rými og möguleiki á 40 til viðbótar

Ný tillaga felur í sér byggingu hjúkrunarheimilis með allt að 100 rými með möguleikanum á að það verði stækkað um 40 rými síðar. Felur það í sér að afmörkuð er ný og stærri lóð fyrir hjúkrunarheimili sem nær til lóðar við Þursaholt 4-12, 14-18 og hluta lóðar 2. Þá er gert ráð fyrir að afmörkuð verði íbúðarhúsalóð fyrir tvö þriggja hæða fjölbýlishús með inndreginni fjórðu hæð á suðvesturhluta núverandi lóðar nr. 2.
Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi segir að ekki sé byrjað að hanna hjúkrunarheimilið, en að stefnt sé að því að bjóða það út fyrir jól. Framkvæmdasýslan mun sjá um útboðið og verður hönnun hluti af því. Nýtt og stærra hjúkrunarheimili mun ekki taka upp allt plássið við Þursaholt. Gert er ráð fyrir að sögn Péturs Inga íbúðarhúsalóðum fyrir fjöguur fjölbýlishús meðfram Krossanesbraut.

Tefur og torveldar framgang lífsgæðakjarna

Rætt var um nýja tillögu á fundi bæjarstjórnar síðdegis á þriðjudag. Þar lýstu fulltrúar Framsóknarflokks, Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson yfir vonbrigðum með breytt fyrirkomulag í í skipulagi hjúkrunarheimilis í Þursaholti, „enda teljum við það tefja fyrir uppbyggingu lífsgæðakjarna á Akureyri. Áður lá fyrir samkomulag við ríkið um 80 hjúkrunarrými og uppbyggingu lífsgæðakjarna með íbúðum fyrir eldri borgara og viðræður staðið í nokkra mánuði hvernig ætti að haga því útboði. Nú er hins vegar gert ráð fyrir 40 rýmum til viðbótar fyrir framtíðarviðbyggingu, sem tefur og torveldar framgang lífsgæðakjarna og gerir út um þær hugmyndir í Þursaholti.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson 

Engin uppbygging fyrir eldri borgara á þessu kjörtímabili

Tafir sem munu valda því að á þessu kjörtímabili hefst engin uppbygging íbúða fyrir eldri borgara. Jafnframt hefur endurbótum á Hlíð seinkað og útboð á nýju hjúkrunarheimili dregist, sem hefur haft neikvæð áhrif á þjónustu við eldra fólk og aukið álag á heilbrigðis- og stuðningsþjónustu. Þrátt fyrir vonbrigði, þá samþykkjum við að auglýsa breytt skipulag, enda ekki ætlunin að standa í vegi fyrir nauðsynlegri uppbyggingu hjúkrunarrýma. Við ítrekum þó gagnrýni okkar á að fyrra samkomulag hafi verið virt að vettugi og teljum að farsælast hefði verið að vinna samkvæmt fyrirliggjandi stefnumótun.“
Fagna uppbyggingu fleiri hjúkrunarrými en miður að lífsgæðakjarna seinkar

Hilda Jana Gísladóttir Samfylkingu segir í bókun það vera mikið fagnaðarefni að til standi að fara í uppbyggingu á hjúkrunarheimili við Þursaholt með allt að 100 rýmum, sem og að hafa möguleika á stækkun um 40 rými síðar.
„Uppbygging lífsgæðakjarna er mikilvægt verkefni sem sveitarfélagið ætti að halda áfram að stefna að, þó svo að það verði á öðrum stað en áður stóð til.“

Hilda Jana Gísladóttir

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir Vinstri grænum segir í bókun mikilvægt að flýta uppbyggingu hjúkrunarrýma á Akureyri eins og kostur er.

„Það að breyta skipulagi, sem var tilbúið, seinkar framkvæmdum, eins frestast uppbygging lífsgæðakjarna sem er miður. Þó er mikilvægt að fjölga hjúkrunarrýmum sem allra fyrst, þörfin er brýn, og því ber að fagna."

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir

 

 

Nýjast