Hjálmurinn bjargaði reiðhjóla- manni sem féll á hjóli sínu

Í morgun var tilkynnt um slys í Kaupvangsstræti á Akureyri á móts við Myndlistarskólann. Þar höfðu þrír 14 ára piltar verið að hjóla niður Kaupvangsstræti þegar einn þeirra missti stjórn á reiðhjóli sínu með þeim afleiðingum að hann kastaðist af því og féll í götuna. Pilturinn var illa áttaður eftir slysið og kvartaði undan verkjum í höfði og baki.   

Pilturinn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Hann lenti með höfuðið í götunni en það varð honum til happs að hann var með reiðhjólahjálm á höfðinu og kom hjálmurinn í veg fyrir meiriháttar meiðsli. Höggið var svo mikið að hluti hjálmsins brotnaði. Eftir aðhlynningu á slysadeild var pilturinn lagður inn á barnadeild FSA þar sem frekari rannsókn átti að fara fram. Pilturinn er ekki talinn hættulega slasaður. Lögreglan á Akureyri og slökkvilið Akureyrar hvetja alla til að vera með reiðhjólahjálm og gæta sérstakrar varúðar við hjólreiðar.

Nýjast