Hélt að við gætum loksins gert Glerárdalinn að fólkvangi

Ingimar Eydal fyrrverandi formaður náttúruverndarnefndar Akureyrar hefur sent öllum bæjarfulltrúum og varabæjarfulltrúum á Akureyri bréf, vegna hugmynda Fallorku ehf. um að virkja Glerá. Ingimar óskar öllum til hamingju með að sorpurðun hafi verið hætt á Glerárdal, eins stefnt hafi verið að í mörg ár. "En á sama tíma vill fyrirtæki í eigu Akureyrarbæjar taka dalinn, eða a.m.k. dalbotninn undir virkjun og "lítið" uppistöðulón."  

Ennfremur segir í bréfi Ingimars. "Ég verð að segja að mér finnst þetta með ólíkindum! Hélt að almennt væru flestir bæjarbúar sammála um, að nú þegar við getum loksins lagað sárið í mynni dalsins, gætum við loksins gert dalinn að fólkvangi, eins og lengi hefur verið stefnt að. Svæðið sem ætlað er undir lón er árgilið ofan við verndarsvæðið (Glerárgil eða Glerárgljúfur), er svæði sem hefur sem betur fer sloppið við alla röskun. Virkjun og uppstöðulón á þessu svæði myndi raska þessu svæði verulega, draga úr gildi þess sem útivistarsvæði auk þess að hafa áhrif á þann hluta Glerárgils sem þegar nýtur verndunar. Ávinningurinn af þessari framkvæmd er hins vegar óverulegur, talað um að með því að fórna þessu svæði fengjum við rafmagn sem dugar 15% af núverandi rafmagnsnotkun Akureyrar.  Ég hef ástæðu til að efast um hagkvæmni þessarar virkjunar, sérstaklega ef umhverfiskostnaður verður tekinn með í reikninginn.  Við verðum að horfa fram á veginn og hætta að taka lítt hugsaðar ákvarðanir sem varða framtíð afkomenda okkar.  Út frá öryggissjónarmiði finnst mér þetta umhugsunarvert, að staðsetja uppistöðulón fyrir ofan bæinn.  Ég minni á að stífla Djúpadalsvirkjunar Fallorku gaf sig í desember 2006 og litlu munaði að manntjón yrði í því flóði.  Ég hef engar forsendur til að ætla að slíkt geti ekki gerst aftur!"

Ingimar sendir jafnframt niðurstöður starfshóps sem hann átti sæti í árið 2004 varðandi framtíðarskipulag Glerárdals. "Vil að lokum skora á ykkur að hugsa þetta mál vandlega.  Að mínu mati hníga öll rök að því að hafna þessu. Við erum að tala um óverulega rafmagnsframleiðslu en mikla röskun á óröskuðu umhverfi."

 Í niðurstöðum starfshópsins kemur m.a. fram að allt það svæði sem geti talist vera uppland Akureyrar: Hlíðarfjall, Glerárdalur, Súlumýrar og nærsvæði, sem nú eru nýtt til ýmissa hluta, þurfi að skoða sem heild. Ennfremur að svæðið verði lýst  fólkvangur og að strax verði hafist handa við deiliskipulag þess. Skipulagið miðist við að nýting svæðisins verði sjálfbær, þannig að hún takmarki ekki möguleika komandi kynslóða á að nýta svæðið eins og nú er hægt að gera.

Nýjast