Talsverð eftirspurn hefur verið eftir lóðum við Daggarlund enda um góðar byggingarlóðir að ræða, að sögn Péturs Bolla Jóhannessonar skipulagsstjóra á Akureyri. Lóðirnar eru byggingarhæfar nú og má því búast við að okkur fari að berast aðaluppdrættir til samþykktar svo hægt sé að hefja framkvæmdir. Alls hefur fjórum lóðum verið úthlutað við Daggarlund og því eru 12 lóðir lausar til úthlutunar þar.
Einnig hefur skipulagsnefnd verið að úthluta lausum lóðum í Naustahverfi til verktaka á þeim svæðum sem ekki hafa gengið út, sem er mjög jákvætt. Hyrnan og Trétak eru helstu fyrirtækin sem borið hefur á þar en þau eru bæði í nýbyggingum og hafa verið að yfirtaka hálfkláruð verk. Síðan er SS-Byggir að klára fyrri blokkina og bílakjallara við Undirhlíð.
Pétur Bolli segir að það séu því jákvæð teikn á lofti hvað varðar byggingariðnaðinn sem hafi verið í mikilli lægð á síðustu misserum. Það er eins og að hann sé að lifna við, bæði hjá verktökum og hjá hinum almenna íbúa. Einnig hefur borið mikið á byggingarleyfisumsóknum vegna minni verka sem íbúar eru að sækja um.