Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra, heimsótti í vikunni Sjúkrahúsið á Akureyri, kynnti sér starfsemina og ræddi við stjórnendur og aðra starfsmenn um áherslur og nýjungar í rekstrinum og sýn stjórnenda til framtíðar. Með ráðherra í för voru Anna Lilja Gunnarsdóttir ráðuneytisstjóri og Sigrún Gunnarsdóttir aðstoðarmaður hans.
Bjarni Jónasson, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, sagði það ánægjulegt að fá tækifæri til að kynna fyrir ráðherra og fylgdarliði það fjölbreytta og kraftmikla starf sem fram fer á sjúkrahúsinu. Eins væri kærkomið að geta komið á framfæri ábendingum um þá þróun sem fara þurfi fram á komandi árum til að þjónusta sjúkrahússins við íbúa á svæðinu geti þróast áfram til samræmis við þær kröfur sem eðlilegt sé að gera til hennar.
Í heimsókninni var ráðherra m.a. sýnd aðstaðan á almennu göngudeild sjúkrahússins, bráðamóttöku, myndgreiningu, legudeild geðdeildar, lyflækningadeild og skurðlækningadeild. Í heimsókn heilbrigðisráðherra var einnig rætt um þau tækifæri sem felast í uppbyggingu og eflingu fjarheilbrigðisþjónustu. Óttarr sagði mikilvægt að sinna þeim þætti vel og sagðist binda vonir við árangur af tilraunaverkefni um uppbyggingu fjarheilbrigðis þjónustu sem er samvinnuverkefni Embættis landlæknis, Sjúkrahússins á Akureyri og Heilbrigðisstofnunar Norðurlands.