Hefði verið vænlegra til árangurs ef allir hefðu skoðað málin af heiðarleika

Fyrrverandi framkvæmdastjóri LA hefur sent frá sér yfirlýsingu, í framhaldi af úttekt á rekstri féla…
Fyrrverandi framkvæmdastjóri LA hefur sent frá sér yfirlýsingu, í framhaldi af úttekt á rekstri félagsins.

Egill Arnar Sigurþórsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Leikfélags Akureyrar hefur sent frá yfirlýsingu í framhaldi af úttekt Akureyrarbæjar á rekstri LA. Yfirlýsingin er svohljóðandi: “ Í ágúst 2008 var sá er þetta ritar ráðinn til starfa sem framkvæmdastjóri Leikfélags Akureyrar (LA) að frumkvæði Sigmundar Ernis Rúnarssonar þáverandi formanns stjórnar leikfélagsins. Starfinu gegndi ég til júlíloka 2011 þegar ég sagði því lausu til að ljúka laganámi sem ég hafði orðið aðgerahlé á vegna vinnu minnar hjá félaginu.”

“Samkvæmt starfssamningi var hlutverk mitt að sjá til þess að ákvarðanir leikhússtjóra og stjórnar gengu eftir. Ráðning og samningagerð við starfsfólk, eftirfylgni með allri umgjörð leiksýninga s.s. smíði leikmynda og rekstur veitingasölu var meðal annars í mínum verkhring. Val á leikritum og leikurum var hinsvegar alfarið í höndum leikhússtjóra og bar hann fulla ábyrgð á þeim verkum auk stjórnar sem samþykkti valið. Fjárhagsáætlanir LA voru þannig unnar að allur fyrirsjáanlegur kostnaður við sýningu var tilgreindur og aðeins gert ráð fyrir öruggum tekjum; framlögum ríkis og Akureyrarbæjar auk framlaga styrktaraðila. Þessi aðferð olli því að í upphafi hvers leikárs var gert ráð fyrir tapi upp á tugi milljóna. Eina leiðin til stoppa í það stóra gat var að vel tækist til við verkefnaval. Það tókst ekki. Einnig reyndust ákvarðanir, sem leikhússtjóri tók þrátt fyrir varnarorð mín og annarra hjá félaginu, um að fara með leikverk til Reykjavíkur og enduruppsetningu á Rocky Horror félaginu alltof kostnaðarsamar. Undirritaður bar ábyrgð á bókhaldi félagsins ásamt leikhússtjóra sem verður stöðu sinnar vegna að teljast bera höfuðábyrgð á starfsemi leikhússins. Leikhússtjóri og bókari höfðu aðgang að öllum gögnum og upplýsingum um fjárhagslega stöðu Leikfélagsins og allt tal um leynd stenst ekki.

Á liðnum vikum hefur staða LA verið ítrekað til umfjöllunar í fjölmiðlum og hafa bæði fyrrverandi leikhússtjóri og fyrrverandi formaður stjórnar haldið því fram að ófarir Leikfélags Akureyrar séu mín sök, þeirra ábyrgð sé lítil sem engin. Nú síðast birtust fréttir af málinu í kjölfar skýrslu sem unnin var undir stjórn Karls Guðmundssonar, innkaupastjóra Akureyrarbæjar. Í skýrslunni er ég borinn þungum sökum og sagður hafa blandað saman eigin fjárhag og fjárhag leikfélagsins. Vart verður þetta orðalag skilið með öðrum hætti en að ég hafi dregið mér fé, slíkt er algjör fásinna. Staðreynd málsins er að ég greiddi af eigin reikningi til þess að hægt væri að standa skil á reikningum félagsins sem ógreiddir hefðu valdið ómældu tjóni. Ég get ekki annað en skoðað réttarstöðu mína gagnvart þessum ærumeiðandi aðdróttunum skýrsluhöfundar. Ég skorast ekki undan því að taka ábyrgð á því sem mér ber í þessu sambandi en það virðist deginum ljósara að enginn annar þeirra sem höfðu aðkomu að málinu telja sig þurfa að gangast við sinni ábyrgð.

Samkvæmt skýrslu innkaupastjórans er ábyrgð Akureyrarbæjar í málinu engin, ábyrgð bæjarstjórnar og –nefnda engin, ábyrgð leikhússtjóra, fyrrum stjórnarformanns og endurskoðanda mjög takmörkuð. Einnig „gleymdist”, eins og innkaupastjórinn orðaði það, að virða andmælarétt undirritaðs sem þó er grundvöllur vandaðara stjórnsýsluhátta. Er óeðlilegt þótt spurt sé hvort þessi málatilbúnaður sé trúverðugur.
Í skýrslunni er hvergi minnst á aðkomu innkaupastjórans að samningum LA við Akureyrarbæ varðandi aðstöðu leikfélagsins fyrir sýningarhald í Hofi enda stýrði innkaupastjórinn þeim samningum fyrir hönd bæjarins. Ekkert er heldur minnst á árvissan niðurskurð á framlögum Akureyrarbæjar sem tilkynnt voru á miðjum leikárum og setti allar áætlanir í uppnám.  Brottvikning leikhússtjóra úr starfi hlýtur að vekja nokkra furðu í ljósi þess að hún er talin hafa borið litla sem enga ábyrgð á því hvernig mál þróuðust. Sigmundur Ernir Rúnarsson fyrrum stjórnarformaður hefur fundið skáldlega, en algjörlega órökstudda, lausn á ábyrgð sinni sem sagt þá að „Þetta [sé] sorglegt mál og raun mannlegur harmleikur.” en erfitt sé að „taka réttar ákvarðanir þegar maður hefur rangar upplýsingar í höndunum.” 

Það hefði verið vænlegra til árangurs ef allir sem að rekstrinum komu hefðu sest niður og skoðað málin af heiðarleika og í raun það eina sem hefði getað skilað vitrænni útkomu úr þessu máli. Það má vel vera að fólki sem er sjóað í ölduróti stjórnmálanna þyki ekki tiltökumál að fórna mannorði annarra til að bjarga eigin skinni. Viðkomandi verða ekki meiri menn fyrir vikið. Það er ósk mín og von að örlög Leikfélags Akureyrar séu ekki undir slíku fólki komin,” segir í yfirlýsingu Egils Arnar.

Nýjast